Þróunarfélag miðborgarinnar mótmælir fækkun bílastæða

Þróunarfélag miðborgarinnar mótmælir harðlega áformum Reykjavíkurborgar um að fækka bílastæðum við götur miðborgarinnar, eins og kemur fram í samþykkt borgarstjórnar. Félagið telur að þau áform, sem lýst er í samþykktinni, séu aðför að rekstri verslunar- og þjónustufyrirtækja í miðborginni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.

„Rekstrargrundvöllur verslana í miðborginni er að miklu leyti háður því að gott aðgengi sé fyrir ökumenn við þær götur þar sem verslunar- og þjónustufyrirtæki eru. Þróunarfélagið fagnar því jafnframt að fjölga eigi bílastæðum í bílastæðahúsum, en það má ekki verða til þess að fækka þeim stæðum sem eru við götur miðborgarinnar.

Ef ákvörðum borgarstjórnar um samgöngustefnu í bílastæðamálum verður framkvæmd, mun það leiða til þess að þeir borgarbúar, sem sækja þjónustu í miðborgina núna, munu beina viðskiptum sínum frekar þangað sem heimilt er leggja bílum sínum og hverfa frá miðborginni. Þróunarfélagið telur að sú mynd, sem dregin er upp af borgarstjórn, að án bílastæða verði miðborgin iðandi af mannlífi, sé ekki raunhæf.

Félagið átelur einnig þau vinnubrögð að ekki skuli haft samráð við þá, sem hafa helst hagsmuna að gæta um þróun miðborgarinnar, áður en svo viðamiklar tillögur eru samþykktar," að því er segir í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert