Laugavegssamtökin mótmæla fækkun bílastæða

Stjórn Laugavegssamtakanna mótmælir harðlega fyrirætlunum borgarstjórnar Reykjavíkur að fækka bílastæðum í miðborginni og þrengja að aðkomu einkabílsins að miðborginni, eins og segir í skýrslu um stefnu í samgöngumálum, sem nýlega var samþykkt í borgarstjórn.

Í tilkynningu frá Laugavegssamtökunum kemur fram, að stjórn Laugavegssamtakanna furðar sig á því, að nú, þegar miðborgin er að ná sér eftir áralanga lægð, skuli borgaryfirvöld veitast að henni með þessum hætti.

„Einkabíllinn er ferðamáti Íslendinga, og ef borgaryfirvöld meina eitthvað með tali sínu um að styrkja miðborgina, væri nær að fjölga bílastæðum en að fækka þeim.

Stjórn Laugavegssamtakann furðar sig einnig á þeirri stjórnsýslu, að móta slíka stefnu án nokkurs samráðs við rekstraraðila og íbúa í miðborginni og krefst þess að borgaryfirvöld falli frá þessari stefnu," að því er segir í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert