Yfirlýsing frá Frjálslynda flokknum

Frjálslyndi flokkurinn hefur sent frá sér yfirlýsingu: „Sú gróusaga gengur nú um Akranes, að forysta Frjálslynda flokksins hafi í undafara kosningabaráttu boðið Gísla S. Einarssyni, fyrrverandi alþingismanni Samfylkingar, sæti á framboðslista Frjálslyndra og óháðra á Akranesi fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar.

Af þessu tilefni og til að útiloka allan misskilning, er rétt að taka skýrt fram, að Gísla hefur aldrei verið boðið sæti á lista af hálfu Frjálslynda flokksins, enda enginn áhugi fyrir því innan flokksins, né hefur Gísli sjálfur leitað eftir slíku.

Frjálslyndi flokkurinn gefur lítið fyrir þau vinnubrögð sem Sjálfstæðisflokkurinn á Akranesi tíðkar þessa dagana, þar sem reynt er að láta líta út fyrir að Gísli S. Einarsson sé í framboði til að sækjast eftir umboði kjósenda til að stjórna bæjarfélaginu næstu fjögur árin. Lögum samkvæmt eru bæjarstjórar ekkert annað en framkvæmdastjórar, sem ráðnir eru til að þjóna bæjarstjórn þar sem sitja kjörnir fulltrúar sem bæjarbúar hafa veitt umboð til valda."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert