VG í Hafnarfirði kynnti stefnu sína

Barna- og fjölskylduvænn bær, bættar almenningssamgöngur, gjaldfrjáls leikskóli, ný upplýsingamiðstöð ferðamanna, kvenfrelsi, og engin stækkun hjá álveri Alcan í Straumsvík eru meðal stefnumála Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs (VG) í Hafnarfirði í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þetta segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, sem leiðir lista flokksins.

VG vilja gera Hafnarfjarðarbæ að eftirsóknarverðum vinnustað, með því að hækka lægstu launin, eyða kynbundnu misrétti og leggja nýja starfsmannastefnu sem stuðlar að starfsöryggi og starfsánægju.

"Við viljum gera Hafnarfjörð að barna- og fjölskylduvænni bæ, hann er það í dag en við viljum ganga lengra," segir Guðrún. Hún segir mikilvægt að hagsmunir og sýn barna verði höfð í huga við ákvarðanatöku, og hagsmunasamtök barna komi beint að ákvörðunarferlinu. Einnig þurfi að efla aðstöðu og jafna aðstöðu barna til að stunda tómstundastarf, íþróttir og listnám.

Einnig telja VG að efla þurfi almenningssamgöngur, og tryggja að börn og ungmenni á leið til og frá skólum, íþróttum og tómstundastarfi fái ókeypis í strætisvagna til að foreldrar séu ekki að skutla börnunum fram og til baka. Þannig sé hægt að byggja upp kynslóð sem venjist því að nota almenningssamgöngur.

"Við höfum einnig lagt áherslu á að leikskólinn verði gjaldfrjáls, við teljum óeðlilegt að leikskólinn, sem talinn er fyrsta skólastigið, sé dýrari en einkarekinn háskóli," segir Guðrún. Einnig telji VG það jafnréttismál að máltíðir í grunnskólum verði nemendum að kostnaðarlausu.

Á móti stækkun álversins

VG eru á móti því að álver Alcan í Straumsvík verði stækkað, og segir Guðrún afar mikilvægt fyrir bæinn að flokkurinn nái inn manni í bæjarstjórn í komandi kosningum til að vera málsvari þeirra sjónarmiða. Hún útilokar þó ekki meirihlutasamstarf við flokk sem hafi það á stefnuskrá sinni að leyfa slíka stækkun, en þá gegn því skilyrði að bæjarbúar fái að kjósa um málið, og fái upplýsingar um allar hliðar þess áður en kosið er.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert