Deiliskipulagi mótmælt á Selfossi

Íbúar við Heiðmörk, Þórsmörk og Austurveg 61 og 63 á Selfossi hafa sent frá sér mótmæli við deiliskipulagi, sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti 10. maí sl. Það er eindregin krafa íbúanna að byggingar við Austurveg 51–59 verði lækkaðar um 2-3 hæðir. Þeir segja að ekki sé einungis um brot á réttindum næstu nágranna, heldur einnig breyting á aðkomu inn í Selfoss. Mótmælin voru afhent á fréttamannafundi í gærkvöldi, að því er fram kemur á fréttavefnum sudurland.is

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum 10. maí að staðfesta samþykkt bygginga- og skipulagsnefndar á deiliskipulagstillögu þeirri sem auglýst hafði verið vegna lóðanna Austurvegur 51–59. Tillagan felur í sér að reist verði tvö 6 hæða hús á umræddum lóðum við Austurveg. Ekki var tekið tillit til athugasemda nágranna, íbúa við Þórsmörk og Heiðmörk ásamt íbúum við Austurveg 61 og 63. Athugasemdirnar voru gerðar innan tilskilins frests eftir að tillagan var auglýst. Ekki var heldur tekið tillit til áherslna, sem fram komu á fundi með byggingafulltrúa og formanni bygginganefndar, sem íbúar óskuðu eftir, skömmu eftir að auglýsing tillögunnar birtist í sunnlenskum blöðum, að því er segir í yfirlýsingum íbúanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert