Meirihlutinn á Akureyri fellur samkvæmt skoðanakönnun

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Akureyrar fellur í bæjarstjórnarkosningunum eftir hálfan mánuð samkvæmt skoðanakönnun, sem Fréttablaðið birtir í dag. Er það aðallega vegna fylgistaps Framsóknarflokksins, en fylgi hans mælist 13,5% í könnuninni en var 24,1% í síðustu kosningum.

Fylgi Sjálfstæðisflokks mælist 34,8% í könnuninni og fengi flokkurinn 4 bæjarfulltrúa, jafnmarga og í síðustu kosningum. Framsóknarflokkurinn fengi 1 bæjarfulltrúa í stað þriggja, samkvæmt könnuninni. Fylgi Samfylkingar mælist 22,6% en flokkurinn var með 13,9% í síðustu kosningum. Fengi Samfylkingin 3 menn samkvæmt þessu í stað eins nú. Listi fólksins mælist með 8,8% og fengi 1 mann en flokkurinn fékk 17,8% í síðustu kosningum og 2 bæjarfulltrúa. Fylgi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs mælist nú 18,2% og fengi flokkurinn 2 fulltrúa. Framfylkingarflokkurinn mælist með 1,6% fylgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert