Foreldrar fá 30 þúsund kr. umönnunarstyrk

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar vilja veita foreldrum 30 þúsund króna umönnunarstyrk á mánuði, frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til barnið byrjar á leikskóla. Frambjóðendurnir kynntu áherslur sínar á blaðamannafundi í gær undir yfirskriftinni „Tími til að lifa og njóta".

Fram kom á fundinum að margt af því sem framboð til sveitarstjórna í stærstu sveitarfélögum landsins hafi á stefnuskrá sinni nú hafi þegar verið framkvæmt af sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ sem þar hafa haft meirihlutastöðu síðustu fjögur árin. Nefna þeir að áhersla hafi verið lögð á beint samband við íbúa, hóflegt gjald fyrir máltíðir í grunnskólum, frístundaskóla, ókeypis strætisvagnaþjónustu, frítt í sund fyrir grunnskólabörn og fleira. Þessa þjónustu hyggjast þeir styrkja í sessi á næsta kjörtímabili.

Velferð einstaklingsins

„Við teljum mikilvægt í líta dýpra í grundvallaratriði sveitarstjórnarmála," segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri og efsti maður á lista sjálfstæðismanna, í samtali við Morgunblaðið. „Hugmyndafræði okkar byggir á að velferð sérhvers einstaklings skipti máli til að heilu samfélagi farnist vel. Velferð einstaklingsins hefst í móðurkviði og fyrstu árin skipta gríðarlega miklu máli fyrir mótun og þroska einstaklingsins til framtíðar. Við viljum skapa samfélag sem umvefur þessar staðreyndir í verki," segir í stefnuyfirlýsingu flokksins.

Í samræmi við þetta segir Árni tímabært að styðja foreldra betur, ekki aðeins þá sem nýta þjónustu dagmæðra og leikskóla. „Við teljum ástæðu til að veita aðstoðina fyrr og gefa foreldrum færi á því að vera eitthvað lengur heima til að sinna barni sínu, ef aðstæður leyfa." Áætlað er að kostnaður sveitarfélagsins aukist um 49 milljónir kr. á ári vegna 30 þúsund króna umönnunarstyrks Reykjanesbæjar, sem greiddur verður frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til barnið getur byrjað á leikskóla. Er þá búið að draga frá þær niðurgreiðslur sem nú ganga til dagmæðra og fleira.

Árni segir að áfram verði lögð áhersla á að öll tveggja ára börn eigi kost á leikskólavist. Lýsir hann jafnframt þeirri skoðun sinni að foreldrar telji yfirleitt mikilvægara að hafa gott starfsfólk og góða aðstöðu á leikskólum en gjaldfrjálsa leikskóla. Þó verði leikskólagjöld lækkuð til samræmis við það sem flest stærstu sveitarfélögin bjóði á næsta kjörtímabili. Áætlað er að við það lækki tekjur bæjarins um 20 til 30 milljónir kr. á ári.

Þrátt fyrir aukinn kostnað segir Árni að íbúar Reykjanesbæjar muni áfram vera með lægsta útsvarshlutfall af fimm stærstu sveitarfélögum landsins og íbúarnir þar greiði lág fasteignagjöld. Vísar hann í því efni til aukinna tekna vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem á sér stað í bænum og fjölgunar íbúa.

Samstarf við einkaaðila

Leggur Árni áherslu á að sú öfluga uppbygging sem átt hafi sér stað í Reykjanesbæ á undanförnum árum byggist á samstarfi opinberra aðila og einkaaðila. Þannig hafi uppbyggingarkraftur samfélagsins margfaldast og sveitarfélaginu gefist aukin tækifæri.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert