Leikskólagjöld lækkuð í Hafnarfirði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í dag að lækka leikskólagjöld í leikskólum bæjarins. Tekur lækkunin gildi frá 1. maí n.k. Almenn gjöld miðað við 8 tíma vistun á dag lækka úr 28.860 krónum á mánuði miðað við fullan fæðiskostnað í 22.310 krónur. Sambærileg gjöld fyrir forgangshópa lækka úr 19.836 krónum í 15.766 krónur.

Reiknað er með að heildarkostaður bæjarfélagsins af þessari lækkun leikskólagjalda verði um 50 milljónir á þessu ári og um 80 milljónir á ársgrundvelli.

Fyrir skömmu samþykkti bæjarstjórn að hækka niðurgreiðslur til dagforeldra í Hafnafirði m.a. til að tryggja samræmi í gjaldskrám og að fyrirséðar hækkanir á þjónustugjöldum kæmu ekki til framkvæmda. Í framhaldi af lækkun leikskólagjalda hefur Fjölskylduráð Hafnafjarðar samþykkt að taka til sérstakrar skoðunar fyrirkomulag og greiðslur vegna vistunar barna hjá dagforeldrum.

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, að með þessari lækkun hafi Hafnafjarðarbær tekið ákvörðun um að nýta góða afkomu bæjarsjóðs og traustan rekstur bæjarfélagsins til að lækka verulega útgjöld hjá barnafjölskyldum í bænum. Þannig lækki dvalarkostnaður fyrir hvert barn á almennum gjöldum um ríflega 70 þúsund krónur miðað við 11 mánuði á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert