Reynir bæjarstjóraefni A-listans

A-listinn í Reykjanesbæ hefur tilkynnt að bæjarstjóraefni framboðsins er Reynir Valbergsson, fyrrv. fjármálastjóri Reykjanesbæjar, sem skipar sjötta sæti listans. Til þess að fá meirihluta í bæjarstjórn þarf A-listinn, sem er sameiginlegt framboð minnihlutaflokkanna Samfylkingar og Framsóknar auk óháðra, að fá sex menn kjörna. Reynir verður faglegur framkvæmdastjóri bæjarins, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá A-listanum.

"Rekstrarþekking Reynis er óyggjandi og afar mikilvæg fyrir bæjarfélagið til að bregðast hratt og örugglega við mikilli skuldasöfnun síðustu fjögurra ára," segir í tilkynningu listans.

Reynir er með meistaragráðu í viðskiptafræði (MBA) frá Edinborgarháskóla og véltæknifræðingur frá Tækniháskólanum í Árósum. Reynir starfar nú sem fjármálastjóri hjá ITS sem er eitt af dótturfélögum Icelandair-Group. Áður starfaði hann sem fjármálastjóri Reykjanesbæjar til níu ára og sjö ár sem ráðgjafi hjá Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns. Reynir er Suðurnesjamaður í húð og hár og er hann kvæntur Unu Steinsdóttur, útibússtjóra Glitnis í Reykjanesbæ.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert