Framsóknarflokkurinn í Reykjavík vill setja samgöngumál á oddinn

Forsvarsmenn Framsóknarflokksins í Reykjavík kynna stefnumál flokksins.
Forsvarsmenn Framsóknarflokksins í Reykjavík kynna stefnumál flokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík kynnti kosningastefnuskrá sína í dag en flokkurinn vill m.a. að skipulags- og samgöngumál verði sett á oddinn og staðið við stóru orðin um samráð við íbúa. Þá vill flokkurinn að Reykjavíkurflugvöllurinn verði færður út á Löngusker.

B-listinn hvetur einnig til þverpólitísks þjóðarátaks í öldrunarmálum og vill tryggja eldri borgurum öruggt ævikvöld. Eyða þurfi biðlistum að hjúkrunarrýmum og efla heimaþjónustu í því skyni að gera öldruðum kleift að búa sem lengst heima.

Þá vill B-listinn að stórátak verði gert í lagningu ljósleiðara um hverfi borgarinnar svo Reykjavík verði háhraðasamfélag þar sem hver og einn hefur aðgang að háhraðatengingu og netsambandi sem jafnast á við það besta sem þekkist. Segir í stefnuskránni, að með slíkum gagnaveitum opnist ótal möguleikar á sviði afþreyingar, fjarkennslu, íbúalýðræðis og öryggismála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert