Sjálfstæði sveitarfélaga og aukið vald til íbúa

Fram kemur í yfirlýsingu flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar, sem haldinn var í Reykjavík í dag, Samfylkingin gangi til sveitarstjórnarkosninga í vor með skýra stefnu um sterkara samfélag. Fyrsta flokks þjónusta við fólk, sjálfstæði sveitarfélaga og aukið vald til íbúa séu leiðarljós Samfylkingarinnar í komandi kosningum.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Sterkara samfélag – allir með
    Samfylkingin gengur til sveitarstjórnarkosninga í vor með skýra stefnu um sterkara samfélag. Fyrsta flokks þjónusta við fólk, sjálfstæði sveitarfélaga og aukið vald til íbúa eru leiðarljós Samfylkingarinnar í komandi kosningum.

    Sveitarfélögin standa sig betur
    Flutningur grunnskólanna til sveitarfélaga sýnir að sveitarfélögin eru mun betur til þess fallin að annast þjónustu við íbúa en ríkið. Ástandið í málefnum aldraðra hjúkrunarsúklinga er skýrt dæmi um það að ríkisvaldið stendur sig ekki. Við viljum að öldrunarþjónusta, heilsugæsla, málefni fatlaðra, löggæsla og framhaldsskólinn flytjist til sveitarfélaga, sem eru næmari fyrir þörfum íbúa og hafa sýnt að þau bera meira skynbragð en ríkið á árangursríkar og hagkvæmar lausnir sem henta íbúum á hverjum stað. Semja þarf strax um breytta tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og gefa þannig sveitarfélögum sem þess megna, tækifæri á að taka við fleiri verkefnum.

    Enn meiri áhrif almennings
    Íbúar vilja og eiga rétt á að taka þátt í ákvörðunum um stór hagsmunamál í sinni heimabyggð. Við munum fjölga beinum atkvæðagreiðslum um mikilvæg hagsmunamál og efla samráð í skipulags-, umhverfis- og skólamálum. Þannig er hægt að ná fram eðlilegri valddreifingu milli ríkis, sveitarfélaga og almennings og flytja vald og framkvæmd þjónustu nær þeim sem eiga að njóta hennar.

    Aukið sjálfstæði sveitarfélaga
    Það er óviðunandi að sveitarfélög þurfi að búa við miðstýringu og smásmuguleg lagafyrirmæli frá ríkisvaldinu, sem takmarka möguleika þeirra til að bjóða íbúunum sveigjanlegri og enn betri þjónustu. Sveitarfélög eiga að starfa innan almenns lagaramma en ekki lúta fjarlægu miðstýringarvaldi. Þessi miðstýring er verst í skólamálum, atvinnumálum og félagsþjónustu.

    Styrk forysta Samfylkingar um allt land
    Forysta Samfylkingarinnar í Reykjavík, Hafnarfirði, Árborg, Hveragerði, Fjarðabyggð, Vestmannaeyjum, Siglufirði, Húsavík, Vopnafirði, Grindavíkurbæ, Ölfusi, Akranesi og á Héraði sýnir svo ekki verður um villst að Samfylkingin er öflugt forystuafl sem nær árangri. Við viljum sterkt samfélag byggt á lýðræði, samábyrgð og jöfnum tækifærum allra íbúa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert