Afkoma Hafnarfjarðarbæjar betri en áætlað var

Rekstrarniðurstaða Hafnarfjarðarbæjar á síðasta ári var jákvæð um 1122 milljónir króna sem er verulega betri árangur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði er jákvæð um 952 milljónir króna samanborið við 727 milljónir árið 2004. Tekjur hækkuðu um 5,2% umfram áætlun í A hluta en um 6,3% í samanteknum A og B hluta.

Eigið fé Hafnarfjarðarbæjar í árslok var um 6 milljarðar króna og jókst um 1,1 milljarð króna á árinu. Eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 24% í 28% á milli ára. Heildareignir í árslok voru 21,4 milljarðar króna og jukust um 1,4 milljarða króna á árinu. Heildarskuldir í árslok voru 21,5 milljarðar króna og jukust um 1,4 milljarða króna. Erlendar skuldir A hluta sem stóðu í 7,4 milljörðum í árslok 2004 lækkuðu um 2,5 milljarða á árinu 2005 í tæpa 4,9 milljarða eða um 35%. Veltufjárhlutfall lækkaði úr 0,8 árið 2004 í 0,55 árið 2005 aðallega vegna 1,4 milljarða viðbótar skuldfærslu á tekjum vegna gatnagerðar.

Veltufé frá rekstri var 1034 milljónir króna á árinu 2005. Handbært fé nam 794 milljónir króna, fjárfestingarhreyfingar 1637 milljónum króna og fjármögnunarhreyfingar 829 milljónum króna. Þannig lækkaði handbært fé um 14 milljónir króna og var 418 milljónir króna í árslok 2005.

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir, að niðurstöðurnar sýni jákvæða þróun í rekstri bæjarfélagsins. Í A hlutanum hækki veltufé frá rekstri sem hlutfall af rekstrartekjum úr 2,5% á árinu 2004 í 8,1% á árinu 2005. Gengisáhætta bæjarfélagsins hafi verið lækkuð verulega á árinu með niðurgreiðslu erlendra lána. Heildarskuldir hefðu staðið í stað ef ekki hefði komið til viðbótar skuldfærsla á tekjum vegna gatnagerðar.

Þá segir að ljóst sé, að þær launahækkanir sem sveitarfélögin hafi tekið á sig að undanförnu umfram þegar gerða kjarasamninga muni hafa áhrif á afkomu þeirra á árinu 2006. Það eigi síðan eftir að koma í ljós hve stór hluti þeirra skili sér í hærri útsvarstekjum. Þá sé ekki ólíklegt að sú mikla spenna sem sé á atvinnumarkaði með tilheyrandi launaskriði og aukinni atvinnuþátttöku geti skilað hærri útsvarstekjum en áætlanir geri ráð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert