Jóhannes sigraði á Akureyri

Bæjarfulltrúarnir Jóhannes Bjarnason, lengst til vinstri, og Gerður Jónsdóttir, sem …
Bæjarfulltrúarnir Jóhannes Bjarnason, lengst til vinstri, og Gerður Jónsdóttir, sem stendur lengst til hægri, enduðu í tveimur efstu sætunum. mbl.is/Skapti

Jóhannes Bjarnason, bæjarfulltrúi, hreppti 1. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins á Akureyri, sem fór fram í dag. Hann fékk 296 atkvæði í 1. sæti, Gerður Jónsdóttir, bæjarfulltrúi, fékk 287 atkvæði í 1.-2. sæti og Erla Þrándardóttir fékk 272 atkvæði í 1.-3. sæti.

„Ég er bæði stoltur og ánægður með minn árangur og ekki síður með listann, sem er geysilega sterkur," sagði Jóhannes þegar úrslitin lágu fyrir.

„Ég óttast ekki andstæðingana, það sem verður okkur erfiðast er staða flokksins í landsmálunum sem er langt undir því sem hann á skilið. En við svörum því bara með harðri kosningabaráttu," sagði Jóhannes, sem telur að það sé viðurkenning fyrir störf þeirra bæjarfulltrúanna í bænum að þau Gerður hafi orðið í tveimur efstu sætunum.

Elvar Árni Lund, sveitarstjóri í Öxarfjarðarhreppi, gaf kost á sér í fyrsta sætið en komst ekki á blað. „Hann er ákaflega hæfur ungur maður en hann er nýr í bænum og það gerir honum erfitt fyrir. Hann hefur ekkert bakland hér. En Elvar Árni ætlar að vera með í liðinu; hann ætlar að vera með okkur í málefnavinnunni og ég er mjög ánægður með það," sagði Jóhannes.

Gerður Jónsdóttir segir úrslitin sigur kvenna. Sex konur gáfu kost á sér í prófkjörinu og þrjár þeirra eru á meðal sex efstu, Gerður og nýliðarnir Erla Þrándardóttir og Petrea Ósk Sigurðardóttir sem varð í 6. sæti.

Erlingur Kristjánsson var með 267 atkvæði í 1.-4. sæti. Sigfús Helgason endaði í 5. sæti í prófkjörinu en hafði bauð sig aðeins fram í 1.-3. sæti. Ingimar Eydal varð því í 5. sæti með 186 atkvæði og Petrea Ósk Sigurðardóttir fékk 227 atkvæði í 1.-6. sæti.

Framsóknarflokkurinn hefur nú 3 bæjarfulltrúa af 11 í bæjarstjórn Akureyrar. Flokkurinn myndar meirihluta með Sjálfstæðisflokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert