„Viðunandi staða í hálfleik"

Bæjarfulltrúarnir Jóhannes Bjarnason og Gerður Jónsdóttir eru í efstu tveimur …
Bæjarfulltrúarnir Jóhannes Bjarnason og Gerður Jónsdóttir eru í efstu tveimur sætunum þegar um það bil helmingur atkvæða hafa verið talin. Hér klappa þau eftir að tilkynnt var að nýliðinn Erlingur Kristjánsson, margreyndur knattspyrnu- og handboltamaður með KA . væri í fjórða sætinu. mbl.is/Skapti

„Þetta er viðunandi staða í hálfleik," sagði Jóhannes Bjarnason bæjarfulltrúi sem var í efsta sæti í prófkjöri framsóknarmanna á Akureyri í kvöld eftir að fyrstu tölur voru lesnar. Þá hafði um það bil helmingur atkvæða verið talinn. Jóhannes er gamalreyndur handboltaþjálfari, stýrði meistaraflokki KA lengi og þjálfar nú unga handboltamenn hjá félaginu. Gerður Jónsdóttir, bæjarfulltrúi, var í öðru sæti þegar helmingur atkvæða var talinn - en Elvar Árni Lund, sveitarstjóri í Öxafjarðarhreppi, sem bauð sig fram í 1. sætið, var ekki á meðal sex efstu.

Jóhannes sagðist mjög sáttur við uppstillingu listans þegar helmingur atkvæði hefðu verið talin. Elvar Árni reyndi við efsta sætið, sem fyrr segir, en Jóhannes segist ekki hafa haft hugmynd hvernig honum reiddi af. „Hann gaf bara kost á sér í fyrsta sætið en ég veit ekki hve mörg atkvæði hann fékk í það sæti. Ég reyndi bara að búa mig eins vel og ég gat; það má segja að þetta hafi verið eins og undirbúningur fyrir góðan handboltaleik. Og staðan er viðunandi í hálfleik."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert