Gistinætur í ágúst aldrei fleiri

Fjöldi gistinátta hefur aldrei mælst hærri í ágúst en í …
Fjöldi gistinátta hefur aldrei mælst hærri í ágúst en í ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gistinætur á skráðum gististöðum voru um 1,47 milljónir í ágúst, en þær hafa aldrei verið fleiri í ágúst áður. Gistinætur erlendra ferðamanna voru um 81% gistinátta, eða um 1,19 milljónir. Það er aukning um 70% frá því í fyrra, þegar tæplega 700 þúsund gistinætur voru skráðar á erlenda ferðamenn.

Gistinætur Íslendinga voru hins vegar um 284 þúsund og er það 16% samdráttur frá fyrra ári.

Þegar horft er til áranna fyrir faraldur er þetta einnig talsverð aukning í fjölda gistinátta, en árið 2018 voru skráðar gistinætur 1.276.608 og árið 2019 voru þær 1.253.825. Er fjöldinn í ár því rúmlega 15% meiri en þegar mest var fyrir faraldur.

Svipaða sögu er að segja frá júní og júlí, en þessir þrír mánuðir eru stærstu ferðamannamánuðirnir hér á landi. Í báðum þessum mánuðum í ár var metfjöldi skráðra gistinátta.

Gistinætur á hótelum í ágúst voru 597.800 og jókst hótelgisting í öllum landshlutum samanborið við ágúst 2021. Gistinætur erlendra ferðamanna voru 492.300, eða 82% af hótelgistinóttum, á meðan gistinætur Íslendinga voru 105.500 (18%). Gistinóttum erlendra ferðamanna fjölgaði um 54% á meðan þeim fækkaði um 12% hjá Íslendingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert