Íslensk söngkona hlaut virt alþjóðleg verðlaun

Marta Kristín Friðriksdóttir syngur í Belvedere-söngkeppninni í Jurmala í Lettlandi …
Marta Kristín Friðriksdóttir syngur í Belvedere-söngkeppninni í Jurmala í Lettlandi í júní. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er fædd og uppalin í Hlíðunum í Reykjavík, var fyrst í Hlíðaskóla og fór svo í Verslunarskólann,“ segir Marta Kristín Friðriksdóttir sópransöngkona sem í gær hlaut hin eftirsóttu þýsku verðlaun Musikalischer Förderpreis Jugend í Debut-söngvakeppninni í Weikersheim.

„Ég hef sungið nánast alla ævi, ég var í Stúlknakór Reykjavíkur hjá Margréti Pálmadóttur,“ segir söngkonan sem er fædd árið 1996, 26 ára gömul, dóttir Friðriks Skúlasonar, tölvunarfræðings og stofnanda samnefnds hugbúnaðarfyrirtækis, og Bjargar Mörtu Ólafsdóttur viðskiptafræðings.

„Ég hafði mjög gaman af að syngja en þorði ekki alveg að viðurkenna að þetta væri draumurinn,“ játar söngkonan sem þó tók það skref að helga ævi sína sönglistinni að loknu stúdentsprófi af eðlisfræðibraut í Verslunarskólanum. „Ég byrjaði í söngnámi í tónlistarskólanum hennar Möggu [Margrétar Pálmadóttur], Domus Vox, og var þar í nokkur ár áður en ég færði mig yfir í Söngskólann í Reykjavík þar sem ég lærði hjá Signýju Sæmundsdóttur, hún er algjör snillingur, hún er bara best,“ segir Marta og leggur ríka áherslu á þessa skoðun sína.

Boltinn tók að rúlla

„Í Söngskólanum í Reykjavík fékk ég óperudelluna og var þar frá 2012 til 2017. Þar fékk ég að taka þátt í minni fyrstu óperu, Töfraflautunni eftir Mozart, þar sem ég söng hlutverk Paminu, þetta var í Hörpunni meðal annars og mikil upplifun,“ segir Marta.

Stoltur verðlaunahafi í Musikalischer Förderpreis Jugend í Debut-söngvakeppninni um helgina.
Stoltur verðlaunahafi í Musikalischer Förderpreis Jugend í Debut-söngvakeppninni um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Þarna byrjaði boltinn að rúlla að sögn söngkonunnar og hún fékk inngöngu í tónlistarháskólann Universität für Musik und darstellende Kunst Wien í Vínarborg, einni af vöggum menningar og lista á meginlandi Evrópu.

„Ég fór í inntökupróf og komst inn, flutti til Vínar 2017, svo þegar Covid kom var ég mikið heima á Íslandi og var bara í fjarnámi, á meðan „lockdown“ var í Austurríki. Áður en ég fór út hafði ég sigrað í opnum flokki í söngvakeppninni Vox Domini og þá hugsaði ég með mér „ókei, ég á eitthvert alvöruerindi í þetta“,“ rifjar Marta upp.

Eins má geta þess að hún fór með sigur af hólmi í keppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listaháskóla Íslands, „Ungir einleikarar“, og kom í kjölfarið fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Hörpu í maí 2021.

Mjög sterk viðurkenning

Eftir að hún komst inn í skólann í Vín hóf hún þar BA-nám í almennum klassískum söng og lauk því í fyrra. Beið hún ekki boðanna heldur hóf meistaranám við sama skóla. „Þá fer ég að sérhæfa mig í óperunni. Þetta er alveg yndislegur skóli og Vín er frábær staður til að læra söng,“ segir Marta.

Hún segir dómnefndina í Debut-söngvakeppninni hafa verið skipaða stórmennum úr veröld söngsins og ákaflega mikils virði að hljóta verðlaunin. „Ég hlaut ekki þessi dæmigerðu fyrsta, annars eða þriðja sætis verðlaun heldur þessi sérstöku verðlaun eða viðurkenningu. Þessi keppni er haldin annað hvert ár og hefur verið haldin síðan 2002, ég held að þetta hafi verið ellefta skiptið sem hún er haldin. Þarna taka þátt vel mótaðir söngvarar sem eru farnir að syngja á sviðum í stórum óperuhúsum og mér gekk bara ljómandi vel, dómnefndin verðlaunaði mig sem ungan og efnilegan söngvara,“ segir Marta af Debut-keppninni.

Marta tekur við verðlaununum. „Ég hafði mjög gaman af að …
Marta tekur við verðlaununum. „Ég hafði mjög gaman af að syngja en þorði ekki alveg að viðurkenna að þetta væri draumurinn,“ segir þessi bráðefnilegi íslenski listamaður sem verður líklega að viðurkenna drauminn er hér er komið sögu. Ljósmynd/Aðsend

Hún kveður verðlaunin mjög sterka viðurkenningu enda hafi hún þurft að syngja ellefu stykki í keppninni, sex aríur og fimm ljóð, þar af eitt nútímaljóð sem aðstandendur keppninnar völdu sérstaklega. Af aríum Mörtu í keppninni eru líklega frægastar E pur così in un giorno sem Kleópatra söng í Giulio Cesari eftir Händel, Giunse alfin il momento úr munni Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós og Ach ich fühl's, söngur Paminu í Töfraflautunni, tvö síðastanefndu verkin úr smiðju Mozarts.

Hvað skyldi þá taka við í framtíð Mörtu?

„Já, framtíðin, það er nú það,“ svarar söngkonan um hæl, „ég er að byrja síðasta árið mitt við tónlistarháskólann núna og mér hefur þegar verið boðið eitt af aðalhlutverkunum í stærstu óperusýningu skólans þetta skólaárið, hlutverk Iliu í Idomeneo eftir Mozart. Það er mikill heiður því samkeppnin í skólanum er gríðarlega hörð og ég er auk þess á leið í prufur fyrir fjölda annarra verka.“

Sambýlismaður Mörtu er Kári Jón Sigurðsson sem er að hefja meistaranám í viðskiptagreiningu eða business analytics svo ólíkt hafast þau sambýlingarnir að.

„Það er bara svo margt sem mig langar að gera og ég verð að nefna að stuðningur foreldra minna hefur verið ómetanlegur, þau eru einmitt að koma í heimsókn núna eftir rúma viku,“ segir söngkonan. Til þess eru foreldrar sammælast blaðamaður og Marta Kristín Friðriksdóttir, verðlaunasöngkona í austurrísku menningarvöggunni Vín, um við lok fróðlegs viðtals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert