Lundinn einkennilega seinn

Birgitte segir enn gilda sömu varúðarráðstafanir vegna fuglaflensunnar og voru …
Birgitte segir enn gilda sömu varúðarráðstafanir vegna fuglaflensunnar og voru settar á í lok mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, segir lundann í Vestmannaeyjum vera seinna á ferð en hann hefur verið í áratugi.

„Lundinn er óvenjulega seinn í Eyjum og einkennilega lítið af fugli uppi, eitthvað sem menn hafa ekki séð í áratugi. Hvað það þýðir veit ég ekki,“ segir Erpur í samtali við Morgunblaðið. „Ég var hræddur um að það væri komin fuglaflensa, hún er orðin mjög slæm hjá súlunni. Við greindum tvo lunda um daginn sem fundust dauðir en þeir voru ekki með fuglaflensu.“

Erpur segir að ekki hafi rekið á land mikið magn af dauðum lundum en nóg sé af síli og ættu fuglanir því að hafa nóg fæði. Hann vonast til þess að fuglaflensan sé á undanhaldi. Erpur segist mikið spurður hvað þetta þýði fyrir veiðar á lundanum.

„Ég mæli með hófsamri veiði samhliða sölubanni,“ segir Erpur.

Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, segir óljóst hvort fuglaflensan hafi áhrif á hversu seinn lundinn sé á land í ár.

„Það liggur ekki fyrir greining, en við höfum heyrt frá fuglaskoðunarmönnum að það sé eitthvað í gangi hjá lundanum. Það er svolítið óljóst hvort það sé fuglaflensan eða hvað,“ segir Brigitte við blaðamann.

„Það eru færri greiningar, en við metum hvort sýni séu tekin úr villtum fuglum. Við tökum ekki sýni úr öllum sem finnast,“ segir Brigitte.

Hún segir enn gilda sömu varúðarráðstafanir vegna fuglaflensunnar og voru settar á í lok mars.

„Við erum að bíða eftir niðurstöðum úr greiningu frá síðustu viku og þá getum við endurmetið stöðuna hvort það sé hægt fljótlega að aflétta þessum varúðarráðstöfum eða hvort það sé ástæða til að hafa þær áfram í gildi,“ segir Brigitte. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert