Vinnumarkaðurinn réttir áfram úr kútnum

mbl.is/Eggert

Áætlað er að um 211.600 manns hafi verið á vinnumarkaði í ágúst 2021, sem jafngildir 79,8% atvinnuþátttöku.

Af þeim voru um 200.800 starfandi, eða 75,8% af vinnuaflinu, og um 10.900 atvinnulausir og í atvinnuleit, eða um 5,5% af vinnuaflinu, að því er kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Þar er fjallað um vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands.

Starfandi fólki í ágúst fjölgaði um 5.900 milli ára, en fækkaði nokkuð frá síðasta mánuði. Í júní og júlí hafði starfandi fólk aldrei verið fleira í einum mánuði í vinnumarkaðsrannsókninni.

Atvinnulausum fækkaði um 2.800 frá ágúst í fyrra en fjölgaði nokkuð frá síðasta mánuði. Hlutfall starfandi var 75,8% í ágúst og hækkaði hlutfallið um 1,4 prósentustig frá ágúst 2020.

Almennt atvinnuleysi minnkaði um 3% á milli ára

Atvinnuþátttaka hefur aukist nokkuð á þessu ári og var 79,8 % nú í ágúst, sem þó var lægra en næstu þrjá mánuði á undan.

Atvinnuþátttakan í ágúst var 0,1 prósentustigi hærri en í ágúst í fyrra. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal var atvinnuþátttaka mest um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í 82%. Samsvarandi tala nú er 78,1% og hefur atvinnuþátttaka á þann mælikvarða verið á stöðugri uppleið frá því í janúar.

Samkvæmt mælingum Hagstofunnar var atvinnuleysi 5,2% í ágúst, sem er 1,4 prósentustigum lægra en á sama tíma í fyrra. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var aftur á móti 5,5% í ágúst og hafði minnkað um 3 prósentustig milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert