Telur úrskurð ekki í samræmi við lög

Við Leifsstöð. Deilt um gjald af heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirliti.
Við Leifsstöð. Deilt um gjald af heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirliti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umboðsmaður Alþingis (UA) hefur birt álit þar sem segir að niðurstaða og málsmeðferð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli sem Isavia kvartaði yfir vegna gjaldtöku og heilbrigðiseftirlits á Keflavíkurflugvelli hafi ekki verið í samræmi við lög.

„Það eru tilmæli mín til nefndarinnar að taka mál Isavia ohf. til meðferðar að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og að hún leysi þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem hafa verið rakin í álitinu. Jafnframt er því beint til nefndarinnar að taka framvegis mið af þessum sjónarmiðum,“ segir í niðurstöðu umboðsmanns.

Isavia gerði á sínum tíma athugasemdir við fjárhæð tímagjalds fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Keflavíkurflugvelli, og einnig við tíðni og umfang eftirlitsins á flugvellinum o.fl. Isavia kærði svo álagningu gjaldsins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem kvað upp úrskurð 10. ágúst 2018 og hafnaði því að fella úr gildi álagningu gjaldsins að stærstum hluta. Í kjölfarið leitaði Isavia til umboðsmanns sem í nýju áliti hefur ýmislegt við málsmeðferð og niðurstöðu nefndarinnar að athuga.

Í umfjöllun umboðsmanns kemur m.a. fram að úrskurður nefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög, bæði að því er laut að málsmeðferð og um fjárhæð tímagjaldsins, sem og um tíðni og umfang eftirlitsins á vellinum. Nefndin hafi hvorki haft fullnægjandi gögn né tryggt að fullnægjandi grundvöllur væri lagður að niðurstöðu hennar um gjaldtökuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert