Stór hópur í vinnusóttkví vegna smitanna

Engin frekari smit greindust í fyrri skimun í tengslum við …
Engin frekari smit greindust í fyrri skimun í tengslum við smitið á krabbameinsdeild í gær. mbl.is

Ekki hafa greinst fleiri smit tengd þeim sem greindust á krabbameinsdeild Landspítalans síðustu tvo daga en stór hópur er í vinnusóttkví uns skimað verður í seinna skiptið.

Þegar smitin komu upp var rakleitt ráðist í umfangsmikla rakningu og skimanir, venju samkvæmt þegar upp kemur smit á spítalanum, að sögn Hildar Helgadóttur, verkefnastjóra farsóttarnefndar. 

Niðurstöður úr þeim skimunum voru neikvæðar en það er þó ekki útséð um að engir fleiri hafi smitast enda getur meðgöngutími veirunnar verið þó nokkrir dagar, bendir Hildur á. „Það þarf oft að skima tvisvar, nú líða sjö dagar meðan fólk er í vinnusóttkví og á meðan ríkir óvissa.“

Í vinnusóttkví getur fólk sinnt sjúklingum en það þarf þó að fara mjög gætilega og umfram þær ströngu kröfur sem eru nú þegar í gildi fyrir starfsfólk Landspítalans í tengslum við grímunotkun, handþvott og fleira.

„Einstaklingar þurfa að matast afsíðis, mega ekki sækja fundi og ekki vera í sameiginlegum rýmum,“ segir Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert