Mistök heilbrigðisstarfsfólks þurfi annan farveg

Læknir á sjúkrahúsinu óskaði eftir gögnum vegna atviks sem kom …
Læknir á sjúkrahúsinu óskaði eftir gögnum vegna atviks sem kom þar upp og varð til þess að læknirinn missti leyfið tímabundið. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál þurfti til þess að læknir fengi skýrslu afhenta um atvik sem hann tengdist. Læknirinn var sviptur lækningaleyfi tímabundið í kjölfar atviksins en Læknafélag Íslands (LÍ) gætti hagsmuna mannsins í málinu fyrir úrskurðarnefndinni.

Læknirinn vildi eintak af svonefndri rótargreiningu umrædds atviks, en slík greining fer fram þegar alvarleg atvik eru skoðuð ofan í kjölinn. Sjúkrahús Akureyrar meinaði honum aðgang að greiningunni, m.a. á grundvelli þess að skýrslan væri vinnugagn og þannig undanþegin upplýsingalögum. Úrskurðarnefndin féllst á málatilbúnað læknisins og Læknafélags Íslands.

Reynir Arngrímsson, formaður LÍ, segir það meðal hlutverka félagsins að aðstoða lækna sem lenda í vandræðum. „Það er afstaða okkar að styðja, en dæma ekki,“ segir Reynir við Morgunblaðið.

Andmælaréttar ekki alltaf gætt

Vandaðir stjórnsýsluhættir voru að sögn Reynis virtir að vettugi um langa hríð í þessum málaflokki: „Við viljum tryggja það að læknar fái réttláta málsmeðferð í málum sem þessum og stjórnsýslulögum sé fylgt. Við höfum sérstaklega rekið á eftir því að andmælaréttar lækna sé gætt en því hefur um langt skeið verið ábótavant. Við höfum verið að veita þessu viðspyrnu og það hefur í kjölfar þess bæst til betri vegar.“

Svipting leyfis afar þungbær

Nokkur mál eru í ferli vegna mistaka lækna, en Reynir segir þau koma upp reglulega en þá eru læknar stundum sviptir lækningaleyfinu tímabundið. Það sé afar þungbært fyrir lækna eins og annað heilbrigðisstarfsfólk. „Eftir mistök eru raunverulega þrír sem verða fyrir áfalli. Það er sjúklingurinn sjálfur, fjölskylda sjúklingsins og heilbrigðisstarfsfólkið. Þau eru undantekningalaust niðurbrotin eftir að hafa lent í atvikum sem þessum.“

Flest mistök sem verða innan heilbrigðisstofnana eru að sögn Reynis kerfislæg eða einhvers konar röð mistaka. „Það er oftast ekki um mistök einstaklings eða eins læknis að ræða. Yfirleitt kerfislæg mistök, það er röð ákvarðana sem leiða til mistaka eða ákvörðunartökuleysi. Læknar taka mistök mjög svo nærri sér.“

Læknafélag Íslands hefur undanfarið beitt sér fyrir því að stuðningsferli fari fljótt í gang eftir að mistök hafa átt sér stað: „Það þarf að fara fljótt af stað einhvers konar stuðningsferli innanhúss sem gefur viðkomandi andrými til þess að jafna sig. Það gengur ekki að þeim sé bara hent á næturvakt beint í kjölfarið eins og lengi hefur viðgengist.“

Kalla eftir nýju kerfi

Auk breyttra rannsóknaraðferða telur Reynir að bæta megi eftirfylgni eftir ákvarðanir um lækna og hæfi þeirra.

„Ef vandræðin eru af heilsufarsástæðum þyrfti viðkomandi þá að geta fengið viðeigandi meðferð eða endurhæfingu og áætlun um hvernig hann geti aftur náð fullri heilsu og þá fengið starfshæfisvottorð frá viðkomandi aðilum. Ef hins vegar grunur leiki á um að viðkomandi sé ekki að sinna símenntun eða hafi gert fagleg mistök þá þarf það koma alveg skýrlega fram hvað fór úrskeiðis og hvað megi betur fara í framtíðinni svo hann geti starfað aftur. Þetta þarf allt að liggja fyrir svo menn endi ekki í blindgötu.“

Mistök tíðari undir álagi

Alma D. Möller landlæknir segir lækna ekki bera ábyrgð á mistökum sem verða vegna kerfisbundinna þátta eins og ónóg mönnun geti verið dæmi um. Þetta kemur fram í svari hennar við fyrirspurn Læknablaðsins í nýjasta tölublaði þess.

Þar er greint frá gríðarlegri undiröldu meðal lækna vegna læknaskorts á Landspítalanum.

Vilhjálmur Ari Arason, 65 ára læknir sem hafði starfað í 40 ár á bráðamóttökunni, sagði starfi sínu lausu fyrr í sumar. Hann sagði neyðarástand ríkja á bráðamóttökunni vegna læknaskorts og sagði það álag sem fylgdi auka líkur á mistökum:

„Það hafa orðið mjög sorgleg tilvik sem tengjast þessu gríðarlega álagi og má að hluta til rekja til þreytu starfsmanna. Við erum að útsetja okkur fyrir gríðarlegri áhættu því ein mistök geta skilið milli lífs og dauða.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert