Hreyfa sig minna

Aðeins 12% sögðust uppfylla núgildandi viðmið landlæknis um minnst 30 …
Aðeins 12% sögðust uppfylla núgildandi viðmið landlæknis um minnst 30 mínútur af rösklegri hreyfingu á dag árið 2020 en 23% sögðust ekki uppfylla viðmiðin neinn dag vikunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dregið hefur bæði úr hreyfingu og daglegri neyslu grænmetis og ávaxta meðal fullorðinna einstaklinga þegar árin 2019 og 2020 eru borin saman. Þá hefur fjölgað í hópi þeirra sem stunda litla rösklega hreyfingu (klukkustund eða minna á viku) og þá sérstaklega í hópi ungra karla en konum sem nota virkan ferðamáta, til og frá vinnu, hefur einnig fækkað töluvert milli ára.

Þetta kemur fram í nýútgefnu tölublaði Talnabrunns, fréttabréfs landlæknis. Var þar fjallað um niðurstöður vöktunar á mataræði og hreyfingu hjá fullorðnum árið 2020.

Þá virðast karlar borða síður ávexti og grænmeti en konur og er neysla á grænmeti minnst hjá 35 ára og eldri. 54% karla og 67% kvenna borðuðu grænmeti daglega eða oftar árið 2019 en árið 2020 var hlutfallið komið niður í 52% hjá körlum og 64% hjá konum.

Marktækt fleiri borðuðu grænmeti daglega eða oftar í yngsta aldurshópnum, 18-34 ára, eða 63%, en í eldri hópunum. Þá sögðu 57% 35-54 ára og 56% 55 ára og eldri neyta grænmetis daglega.

Í könnuninni kemur fram að neysla sykraðra gosdrykkja og orkudrykkja hafi haldist nánast óbreytt milli ára þó að vísbendingar séu um aukna neyslu orkudrykkja meðal yngri kvenna (18-34 ára) og að dregið hafi úr daglegri neyslu meðal yngri karla. Aukning hefur hins vegar orðið á sykurlausum gosdrykkjum sem jókst úr 13% í 15%.

Aðeins 12% sögðust uppfylla núgildandi viðmið landlæknis um minnst 30 mínútur af rösklegri hreyfingu á dag árið 2020 en 23% sögðust ekki uppfylla viðmiðin neinn dag vikunnar. Lítil breyting virðist vera á hreyfingu landsmanna hvað þetta varðar. Karlar á aldrinum 18-34 ára voru líklegastir til að stunda litla rösklega hreyfingu eða klukkutíma eða minna á viku, árið 2020, en mest breyting var á þessum hópi milli ára þar sem hlutfallið hækkar úr 22% árið 2019 í 32% árið 2020. Lítil breyting er á öðrum aldurshópum karla.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 6. júlí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert