Rafhjólabylgjan rétt að byrja

Sesselja fer ferða sinna á stærri gerðinni af rafmagnshjóli.
Sesselja fer ferða sinna á stærri gerðinni af rafmagnshjóli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Salan hefur margfaldast árlega síðustu tvö til þrjú ár og samkvæmt söluaðilum lítur ekki út fyrir að sú þróun stoppi. Helstu vandamál tengjast hreinlega því að fá nægjanlegan fjölda hjóla til landsins vegna mikillar eftirspurnar á heimsvísu.

Sesselja Traustadóttir hefur mörg undanfarin ár staðið framarlega í stafni þegar kemur að uppgangi samgönguhjólreiða og er í dag framkvæmdastjóri Hjólafærni auk þess að flytja inn sérstök flutningshjól. Fyrir sex árum fékk hún sér sitt fyrsta rafmagnshjól, en hafði fram að því hjólað mikið á hefðbundnum reiðhjólum. Hún segist ekki hafa horft til baka eftir það.

„Lygilega mikil breyting“ að fara á rafmagnshjól

„Það er lygilega mikil breyting að fara af venjulegu hjóli yfir á rafmagnshjól,“ segir hún og bendir á að fyrir stóran hóp sé þetta mun betri lausn sem samgöngutæki til og frá vinnu en hefðbundin hjól. „Þú svitnar ekki, það eru engar brekkur og þú finnur lítið fyrir mótvindi.“ Þá opni þetta dyrnar fyrir alveg nýjan markhóp sem hefði áður aldrei íhugað samgönguhjólreiðar.

Sesselja viðurkennir að hún hafi í raun aldrei farið aftur á hefðbundið hjól eftir að hún fékk sér rafmagnshjólið. „En ég byrjaði að ganga slatta,“ bætir hún við. Það helgist af því að rafmagnshjólinu fylgi ekki alveg jafn mikil hreyfing og á hefðbundnu hjóli. Segir hún að fyrir þá sem séu vanir að hjóla þýði yfirfærsla á rafmagnshjól að þú fáir áfram útiveruna og haldir góðri matarlyst eftir hreyfingu. Hins vegar gæti verið sniðugt að kíkja aðeins í ræktina eða ganga til að vinna upp minni áreynslu. „En fyrir þann sem hefur verið á bíl þá þarf hann ekki að fara í ræktina,“ segir hún.

Eins og kemur fram á öðrum stað í þessu blaði jókst innflutningur rafmagnshjóla mikið síðustu ár. Sesselja segir að búast megi við að sú þróun haldi áfram. „Salan í fyrra var aðeins upphafið,“ segir hún og vísar til þess að margir séu að uppgötva kosti rafmagnshjóla og að með slíkum farartækjum sé fólk alla jafna mun fljótara að ferðast í 5 kílómetra radíus en með bíl. Þá sé hægt að fá mjög gott rafmagnshjól fyrir kannski 400-500 þúsund krónur og möguleikarnir með slík hjól séu orðnir gríðarlegir að mati Sesselju. Í dýrari flokki séu svo flutningahjól sem leysi enn frekar bílinn af hólmi og kosti mun minna en bíll. Segist hún gera ráð fyrir að aukin sala muni aðeins halda áfram með frekari þróun almenningssamgangna og uppbyggingu borgarlínu sem passi mjög vel við notkun rafmagnshjólanna.

graf/mbl.is
Graf/mbl.is



Rafmagnshlaupahjólin ýti undir áhuga á rafmagnshjólum

Sala á rafmagnshlaupahjólum sprakk út í fyrra og segir Sesselja að vinsældir tækjanna muni aðeins ýta undir áhuga á rafmagnshjólum til lengri tíma. Þannig séu hlaupahjólin vinsælust hjá yngri kynslóðinni meðan þeir sem séu orðnir aðeins eldri horfi helst til rafmagnshjólanna. Þar spili bæði inn í að hjólin séu nokkuð dýrari, en líka að þægilegra sé að fara lengri vegalengdir á þeim. Því séu þau vinsæl hjá fólki sem noti þau til að fara til vinnu, en ekki síður hjá eldra fólki sem horfi á rafmagnshjólin sem sína hreyfingu og útiveru og komist með þeim mun víðar um en á hefðbundnum hjólum. Það hafi meðal annars verið þróunin í Hollandi, þar sem stærsti kaupendahópur rafmagnshjólanna hafi verið eldra fólk sem vildi fara í lengri ferðir. Segir Sesselja að þegar yngri hópurinn eignist börn og eldist séu allar líkur á að hann muni að hluta til færa sig yfir í hjólin og þannig séu þau ákveðinn stökkpallur í þessari þróun.

Sesselja telur að vinsældir rafhlaupahjóla muni leiða til þess að …
Sesselja telur að vinsældir rafhlaupahjóla muni leiða til þess að sami kaupendahópur hugi að kaupum á rafmagnshjólum síðar meir. mbl.is/Hari

„Ég held að við munum sjá rosalegan vöxt, jöfnum höndum á komandi árum. Þeir sem hafa verið að hjóla munu fara á rafmagnshjólin og þeir sem hafa verið á bíl og hugsa um að færa sig á hjól muni vera fegnir að lenda á rafmagnshjólinu,“ segir hún. Samkvæmt ferðakönnun í Reykjavík árið 2019 fóru borgarbúar um 8% ferða sinna á hjólum. Sesselja segir að allar líkur séu á að það hlutfall fari á komandi árum upp í 15-17% af heildarfjölda ferða, en þar er hún nokkuð bjartsýnni en borgaryfirvöld, en í nýrri hjólreiðaáætlun til ársins 2026 verður að öllum líkindum horft til þess að fara yfir 10%.

Salan tvöfaldast og þrefaldast milli ára

Jón Þór Valsson, verslunarstjóri hjá rafhjólasetri Ellingsen, segir að hjá versluninni hafi sala rafhjóla tvöfaldast í fyrra, en árið þar á undan varð þreföldun. Hann segist ekki sjá fyrir sér að viðsnúningur verði á þessari þróun á næstunni. Þannig hafi Ellingsen búist við áframhaldandi vexti í sölu og hagað innkaupum ársins samkvæmt því.

„Það sem er að gerast er að sala á rafhjólum og reyndar hjólum almennt hefur rokið upp úr öllu valdi,“ segir hann. Einn stærsti áhrifavaldurinn hafi verið kórónuveirufaraldurinn, en þar sem fólk hafi lokast innanlands hafi verið ákveðið að nota peninga sem áður fóru í utanlandsferðir frekar í upplifun og þar hafi rafhjól gjarnan orðið fyrir valinu. „Við höfum ekki farið varhluta af því og þetta virðist raunar vera gegnumgangandi um allan heim,“ segir hann.

Þessi mikla eftirspurn hefur raunar haft þau áhrif að erfitt hefur verið að fá öll þau hjól sem eru pöntuð og löng bið er jafnan eftir rafmagnshjólum og öðrum hjólum. Jón segir þetta mest hafa komið niður á fjölda rafmagnsfjallahjóla sem Ellingsen hafi fengið það sem af er ári. Borgarhjólin hafi að mestu skilað sér, en það séu einnig þau sem njóti mestra vinsælda. „Við fáum fleiri fjallahjól líklega í júlí, en við fengum mun færri hjól en við vildum,“ segir hann um fjallahjólin. Þá hafi jafnvel sumar tegundir ekki komið í minnstu stærðunum.

Salan á rafmagnshjólum er líka að aukast í ár

Jón Þór Skaftason, sölustjóri hjá Erninum, tekur í svipaðan streng. „Við erum að glíma við það sama og flestir aðrir. Það er mikil eftirspurn, en framboðið ekki nægjanlegt,“ segir hann. „Við höfum aldrei pantað eins snemma og í fyrra og aldrei fengið hjólin jafn seint.“ Hann telur þó að nóg verði af hjólum sem komi til landsins, spurning sé aðeins hvenær síðari sendingar muni berast í sumar.

Rafhjól verða sífellt algengari á götum borgarinnar.
Rafhjól verða sífellt algengari á götum borgarinnar. mbl.is/Hari

Eins og á öðrum stöðum segir Jón að mikil aukning sé í sölu rafmagnshjóla og að hjá Erninum séu þeir að sjá meiri sölu í ár en í fyrra og að sú þróun muni halda áfram. „Við spáum að áfram verði mikil aukning í sölu rafmagnshjóla á næsta ári, svo kannski fer þetta að jafna sig aðeins,“ segir hann. „Með þeirri umgjörð sem hefur verið komið upp hér á höfuðborgarsvæðinu og með tilkomu rafmagnshjólanna sem taka í burtu þá hindrun sem fólk setti áður fyrir sig, þá munum við sjá nokkuð stöðuga aukningu,“ bætir Jón við.

Að mestu nýir viðskiptavinir

Spurður hvort sala rafmagnshjóla sé tilfærsla á viðskiptavinum sem annars hefðu keypt hefðbundin hjól segir Jón að sín tilfinning sé að kúnnahópurinn sé að mestu nýr. „Sala á venjulegum hjólum hefur áfram verið svipuð.“ Helst sé það í flokki fjallahjóla þar sem tilfærslan eigi sér stað og vanir fjallahjólarar séu að færa sig í rafmagnið þegar kemur að fulldempuðum hjólum. Það séu þó nokkuð dýr hjól og sé því ekki að draga úr sölu, frekar að fólk sé að gera betur við sig.

Grein­in birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins 30. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert