Smit utan sóttkvíar – fjórir í sóttkví

Eitt smit greindist innanlands síðasta sólarhringinn og eru nú 13 í einangrun. Aðeins fjórir eru í sóttkví og 894 eru í skimunarsóttkví. Sá sem greindist innanlands í gær var ekki í sóttkví og er þetta fyrsta smitið utan sóttkvíar síðan 1. febrúar.

Nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa innanlands síðustu tvær vikurnar er nú 0,8 og 2,7 á landamærunum. Nýgengið hefur því hækkað aðeins síðan á föstudag innanlands en þá var það 0,3. Aftur á móti hefur það lækkað á landamærunum, úr 3,6 í 2,7.

Á landamærunum greindist eitt virkt smit í fyrri skimun en einn reyndist með mótefni. Daginn áður greindist eitt smit í fyrri skimun en tveir voru með mótefni. Á landamærunum voru tekin 600 sýni í gær en 244 innanlands. 

Eitt smit hjá barni 

Sjö eru á sjúkrahúsi en ekki kemur fram hversu margir þeirra eru með virkt smit. 

Allir þeir sem eru í sóttkví eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu en þar eru átta í einangrun. Á Suðurnesjum eru tvö smit og eins á Norðurlandi eystra. Einn er í einangrun óstaðsettur í hús. 

Ekkert barn hefur verið smitað af Covid-19 í einhvern tíma en nú er einn unglingur með virkt smit. Fimm smit eru í aldurshópnum 18-29 ára, fjögur smit í aldurshópnum 30-39 ára og eitt smit á fimmtugsaldri, eitt á sextugsaldri og eitt á sjötugsaldri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert