Eldsneytissala dróst saman um 9,6%

Eldsneytissala á fjórða ársfjórðungi 2020 var rúmlega 74 þúsund rúmmetrar (samtals bensín og dísil) samkvæmt bráðabirgðatölum sem er 9,6% minna en á fjórða ársfjórðungi 2019 (rúmir 82 þúsund rúmmetrar).

Rúmmál eldsneytis, sem afgreitt var á erlend greiðslukort, var 0,7 þúsund rúmmetrar árið 2020 en var 7,6 þúsund rúmmetrar árið 2019 eða ellefu sinnum meira. Sala utan erlendra greiðslukorta var því aðeins um 1,5% minna árið 2020 miðað við 2019.

Það virðist því að ferðalög Íslendinga á vegakerfi landsins á fjórða ársfjórðungi 2020 hafi verið sambærileg við 2019 þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn (Covid-19), segir á vef Hagstofu Íslands.

Umferðin á Hringveginum árið 2020 dróst saman um 13,6 prósent miðað við árið 2019, þetta er langmesti samdráttur sem mælst hefur. Hann er tveimur og hálfu sinnum stærri en sá sem mældist á milli áranna 2010 og 2011. Umferðin í desember dróst saman um 7,3 prósent.

Umferðin um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi dróst svipað saman og umferðin á höfuðborgarsvæðinu eða um 7,3%. Mest dróst umferð saman á Suðurlandi eða um tæp 22% en minnst, utan höfuðborgarsvæðis, um Norðurland eða um 12%. Ekki hefur mælst minni umferð í desember á Hringvegi síðan árið 2016.

Af einstaka stöðum varð mestur samdráttur um mælisnið á Mýrdalssandi eða tæplega 72% samdráttur en minnst, utan höfuðborgarsvæðis, um mælisnið í Kræklingahlíð norðan Akureyrar eða 4,5% samdráttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert