„Ekkert ákall frá almenningi“

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins, segir að samfélagið kalli ekki eftir …
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins, segir að samfélagið kalli ekki eftir sölu á Íslandsbanka. 55,7% eru andvíg sölunni skv. könnun á vegum Gallup. mbl.is/Ófeigur

„Að mínu mati hlýtur það að vera að stjórnvöld taki mark á því að það er ekkert ákall frá almenningi um að selja Íslandsbanka,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is.

Tilefnið er könnun Gallup sem framkvæmd var dagana 14.-22. janúar, þar sem meirihluti svarenda sagðist andvígur sölu ríkisins á sínum hlut í Íslandsbanka.

Spurt var: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að ríkið selji hlut sinn í Íslandsbanka á næstu mánuðum?

55,7% sögðust andvíg, 23,5% sögðust hlynnt og 20,8% sögðust hvorki andvíg né hlynnt.

Í dag á íslenska ríkið á 98% hlut í Íslandsbanka en til stendur að selja hluta af eignarhlut bankans í opnu útboði og skrá á innlendan hlutabréfamarkað, en miðað er við að sá hluti verði um 25% að sinni.

Spurning könnunarinnar lýtur því ekki beint að því álitaefni sem er fyrir hendi.

„Ekki nauðsynlegt að gera þetta með hraði“

„Það er ekki nauðsynlegt að gera þetta með hraði og það er heldur ekki nauðsynlegt að gera þetta án þess að taka umræðuna um það hvernig bankastarfsemi í landinu ætti að vera. Það eina sem mér finnst liggja á er að ná þessu fyrir kosningar,“ segir Drífa.

Meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokks er hlynntur sölu hlutar ríkisins (56%) og þar á eftir er stuðningur mestur meðal kjósenda Miðflokksins (32%). Minnstur stuðningur er meðal mögulegra kjósenda Sósíalistsaflokksins þar sem nærri allir eru andvígir sölu Íslandsbanka.

Þegar litið er til menntunar voru 10% svarenda með háskólapróf að öllu leyti hlynntir sölu en 14% þeirra voru að öllu leyti andvígir. 23% sögðust hvorki andvígir né hlynntir og 24% sögðust frekar andvígir. Stærstur hluti svarenda með grunnskólapróf var að öllu leyti andvígur (23%) en 5% þeirra voru að öllu leyti hlynntir sölu.

Margir hlynntir samfélagsbanka

Að öðru leyti er andstaðan mest í röðum kjósenda Samfylkingar (73%), þarnæst Pírata (68%) og loks Vinstri grænna (65%). Aðeins 13% kjósenda Viðreisnar eru hlynntir sölu Íslandsbanka en 23% kjósenda Vinstri grænna eru hlynntir henni.

Aftur skal þó tekið fram að ekki eru fyrir hendi áform um að ríkið selji allan hlut sinn í bankanum.

Í könnuninni var einnig könnuð afstaða til þess að ríkið stofni svokallaðan samfélagsbanka og voru meira en 63,5% sögðust hlynnt því en 15% andsnúin. Segir Drífa meginhugsunina með samfélagsbanka ganga út á að hann sé rekinn án hagnaðarsjónarmiða en afgangsfjármagn renni til samfélagslegra verkefna eða í þágu samfélagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert