Dómstóllinn sitji á þeirri hillu sem hann á heima

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Kristinn Magnússon

Snörp orðaskipti áttu sér stað þegar niðurstaða yfirréttar Mannréttindadómstóls Evrópu var rædd um Landsréttarmálið í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Stjórnarandstaðan spurði hvort ekki stæði til að bregðast við dómnum en stjórnarþingmenn sögðu að það hefði þegar verið gert og að niðurstaðan væri ekki þess eðlis að réttaróvissa væri með mál sem fallið hafa í Landsrétti hingað til. 

Var þeim Loga Einarssyni úr Samfylkingu, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur úr Viðreisn og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur Pírata tíðrætt í fyrirspurnum sínum um að Sjálfstæðismenn hefðu gert lítið úr dómnum og spurðu hvort til stæði að fara eftir því sem fram komi í dómnum.

Logi spurði Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra hvort hún teldi að það mistök að hafa varið Sigríði Andersen, fyrrum dómsmálaráðherra, vantrausti þegar vantrauststillaga var borinn upp í þinginu 2017, Eins hvort að forsætisráðherra hyggist beita sér fyrir því að dómurinn myndi verða tekinn alvarlega og hvort hún hefði áhyggjur af orðspori Íslands í ljósi hans.

Logi Einarsson
Logi Einarsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín sagði að í andsvari sínu að dómurinn væri tekinn alvarlega og að það hefði verið gert þegar mál Mannréttindadómstólsins hafi fallið ríkinu í óhag hingað til. Hún benti einnig á að Sigríður Andersen hefði tekið pólitíska ábyrgð með því að segja af sér ráðherraembætti þegar dómur undirréttar Mannréttindadómstólsins féll. Þá hafi þegar verið gripið til aðgerða sem þegar hafi komið fram í niðurstöðu Mannréttindadómstólsins hingað til.

Hæstiréttur þegar tekið málið fyrir 

Þorgerður Katrín beindi fyrirspurn sinni að Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra.  Gagnrýndi hún Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa gert lítið úr sjónamiðum um jafnrétti við skipan í Landsrétt. Benti hún á að 17 dómarar MDE hefðu allir verið sammála um það að fyrrverandi dómsmálaráðherra hafi ítrekað ekki farið eftir tilmælum m.a. úr ráðuneyti um það hvernig bæri að standa að skipaninni.

Bjarni benti á að efnislega væri dómur yfirréttar þess eðlis að hann skapaði ekki réttaróvissu í þeim málum sem þegar hafi fallið í Landsrétti. Það væri mikilvægt að halda því til haga. Ennfremur að dómurinn breytti ekki réttarstöðu þess einstaklings sem vildi ógildingu dóms og bætur. Hæstiréttur hefði þegar tekið málið til efnislegrar meðferðar. Mannréttindadómstóllinn væri ekki Hæstarétti Íslands æðri.

„Ég er ekki að tala Mannréttindadómstólinn niður. Ég er bara að setja hann á þá hillu sem hann á heima, sem er fyrir neðan íslenska dómstóla, samkvæmt stjórnarskránni,“ segir Bjarni. Benti hann á að dómstólar hefðu þegar fjallað um málið og því væri umræðan tæmd með dómum Hæstaréttar. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins bætti engu við hann. 

Enginn bráðavandi 

Þórhildur Sunna spurði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur hvort ráðherra sé alvara með það að ætla ekki að bregðast við niðurstöðu MDE eins og Þórhildur taldi haft eftir Áslaugu í fjölmiðlum.

Áslaug Arna sagði að engan bráðavanda stafa að Landsrétti sem þurfi að bregðast við. Niðurstaðan hafi ekki áhrif á þau mál sem þegar hafa fallið. Þetta sé dómur sem horfi fyrst og fremst til framtíðar. Af honum mætti fyrst og fremst draga lærdóm. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Hari

Telur hún megin atriði sem megi draga úr niðurstöðu yfirréttar vera þá að hann hafi skýrt betur niðurstöðu undirréttar Mannréttindadómstólsins. Þannig hafi réttaróvissa með þau mál sem þegar hafi fallið í Landsrétti verið eytt. Þegar hafi verið brugðist við ábendingum og því væri ekki rétt að halda öðru fram. Meðal annars með upptöku sjálfstæðs endurupptökudómstóls fyrir þá sem þangað vilja leita.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert