„Allt sem er yfir tíu er áhyggjuefni“

„Þessi samfélagssmit eru þarna enn þá og auðvitað hefur maður …
„Þessi samfélagssmit eru þarna enn þá og auðvitað hefur maður áhyggjur af því. Þó þau séu færri þá eru þau samt þarna. Allt sem er yfir tíu er áhyggjuefni,“ segir Anna Sigrún. Ljósmynd/Landspítalinn/ÞÞ

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, segir að ef mikil aukning yrði í kórónuveirusmitum nú eða á næstu dögum þýddi það líklega að alvarleg staða yrði á spítalanum um jólin. Því segir hún að það hafi verið léttir að sóttvarnaaðgerðir í samfélaginu hafi verið framlengdar. Þrátt fyrir það sé áhyggjuefni hve mörg smit hafi greinst síðustu daga. 16 greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær. 

Einungis sjö manns eru inniliggjandi á Landspítala með virk kórónuveirusmit, þar af tveir á gjörgæslu. Aftur á móti er 31 inniliggjandi sem voru með virk smit. Flestir sem þeim hópi tilheyra eru sjúklingar á Landakoti sem annað hvort eru að jafna sig eftir Covid sýkingu eða urðu aldrei neitt sérstaklega veikir af Covid. 

Minna er um veikindi vegna annarra smitsjúkdóma nú en fyrri ár. 

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala.
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala.

Erfitt að skipuleggja viðbragð yfir jólin

Var það léttir fyrir ykkur að sóttvarnaaðgerðir skyldu vera framlengdar í ljósi stöðunnar?

„Já, við auðvitað óttuðumst það að ef þetta væri að fara af stað aftur þá væri tímalaggið á þessu beint inn í jólahátíðina. Ef við værum að sjá einhverja meiriháttar aukningu í smitum á þessum tíma núna værum við að detta í alvarlega stöðu rétt um jól og það er náttúrulega frekar óspennandi, aðallega fyrir sjúklingana,“ segir Anna Sigrún og bætir við:

„Að auki er ekki auðvelt að skipuleggja eitthvað mikið viðbragð á þessum tíma ársins. Við hefðum samt náttúrulega gert það ef til þess hefði komið. Þessi samfélagssmit eru þarna enn þá og auðvitað hefur maður áhyggjur af því. Þó þau séu færri þá eru þau samt þarna. Allt sem er yfir tíu er áhyggjuefni.“

Gerir ráð fyrir minna álagi vegna inflúensu

Landspítali rekur nú eina farsóttareiningu þar sem fimm hinna smituðu liggja en hinir tveir liggja á gjörgæslu. Enginn hefur verið lagður inn á spítala vegna Covid-19 síðustu tvo þrjá daga en einhverjir voru lagðir inn um helgina. 

Aðspurð jánkar Anna Sigrún því að minna hafi verið um veikindi að undanförnu vegna annarra smitsjúkdóma en Covid-19. 

„Það er oft þannig að inflúensan er ekki komin á þessum tíma. Hún kemur oft um þetta leyti er hún að byrja að stinga sér niður og svo kemur hún upp í janúar. Eðli málsins samkvæmt koma inflúensuveikindin helst fram í janúar, eðli másins samkvæmt – þegar fólk er búið að vera að hitta alla sína. Nú verður kannski eitthvað minna um það þannig að nú gerir maður ráð fyrir minna álagi af þessu“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert