Tilefni til að endurskoða Hvassahraunsflugvöll

Ari Trausti þingmaður Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs og jarðfræðingur.
Ari Trausti þingmaður Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs og jarðfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Ari Trausti Guðmundsson þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs segir tilefni til þess að endurskoða staðsetningu Hvassahraunsflugvallar. Þetta kom fram í ræðu Ara um þingsályktunartillögu Njáls Trausta Friðbertsson, og fleiri þingmanna varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar fór fram á Alþingi í gær. 

„Núna tel ég þannig komið að það þurfi mjög vandlega að endurmeta náttúruvá á Reykjanessakaga og þar með staðsetningu Hvassahraunsflugvallar ef að hann er inni í myndinni,“ sagði Ari Trausti í ræðustól.

Ari Trausti er jarðfræðingur að mennt, með Cand. mag. próf í jarðvísindum frá Oslóarháskóla árið 1973 og framhaldsnám í jarðvísindum frá Háskóla Íslands. Í ræðu fór Ari Trausti yfir eldstöðvakerfin fjögur á Reykjanesskaga þá sérstaklega tvö þeirra sem eru nær höfuðborgarsvæðinu, Reykjaneskerfið annars vegar og svokallað Krísuvíkurkerfið hins vegar. 

Stóri jarðskjálftinn sem reið yfir höfuðborgarsvæðið á þriðjudaginn átti upptök sín í Krísuvíkureldstöðvakerfinu. 

Gæti verið upphafið af nýju skeiði

„Meðaltal ára milli umbrotaskeiða á Reykjanesskaga er um 750-800 ár. Sá tími er nú liðinn frá síðasta, langa skeiði. Því lauk um 1240. Þess vegna verður að tortryggja núverandi atburðarás. Hún gæti verið upphafið að nýju skeiði, eins þótt óróinn sé í vestustu kerfunum en ekki austar. Vel getur svo farið að núverandi virkni hjaðni og ár eða áratugir líði með svipuðum hrinum af og til. Hitt getur líka gerst, stutt rökum og mæligögnum, að smám saman fjölgi atburðum; þ.e. sprunguhreyfingum og kvikuinnskotum, uns upp úr sýður,“ segir Ari Trausti í samtali við mbl.is 

Þess vegna telur Ari Trausti nú ástæðu til að endurskoða mat á náttúruvá, þegar fjallað er um Hvassahraunsflugvöll. Hann segir í samtali við mbl.is það ekki róttæka hugmynd, heldur fyllilega eðlileg viðbrögð við þróuninni á Reykjanesskaga.

Orkuskipti kalla á nýja hugsun

Ari fór í ræðu sinni einnig yfir stöðuna á orkuskiptum í flugsamgögnum. Einkum yfir tegundir sem nú eru í þróun sem ganga fyrir rafmagni, twin-vélar eða vetnisknúnar vélar. Hann sagði verulegan hluta flugvélag í þróun vera svokallaðar VTOL-vélar, þ.e. sem taka sig lóðrétt á loft en geta snúið hreyflunum til að knýja þær hratt áfram. Ari segir þær til í ýmsum stærðum og útgáfum en þær sem ætlaðar eru til innanlandsflugs séu svokallaðar stuttbrautarvélar, þ.e. krefjast ekki nema um 500-750 metra langar flugbrauta.

„Allt þetta gerir það að verkum að flugmannvirki einkarlega þá í innanlandsflugi, geta verið mun minni en við þekkjum nú til dags. Þetta hlýtur að hafa áhrif á okkar umfjöllun bæði flug sem almenningssamgöngur og flugmannvirkin sem við erum að deila um.“

Hvassahraun ekki raunhæfur varaflugvöllur

Þá segir Ari hugmyndina um Hvassahraunsflugvöll sem varaflugvöll ekki mjög þungvæga enda veðurskilyrði í Hvassahrauni og í Keflavík mjög lík að hverju sinni. Samkvæmt nýrri flugstefnu og samgönguáætlun sé gert ráð fyrir Akureyrarflugvelli og Egilsstaðarflugvelli sem varaflugvöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert