Óvenjukalt og sólarlaust

Það er óvenjukalt og sólarlaust í Reykjavík þessa dagana.
Það er óvenjukalt og sólarlaust í Reykjavík þessa dagana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sólskinsstundir hafa mælst aðeins 12,1 í Reykjavík það sem af er ágústmánuði og hafa aðeins einu sinni verið færri fyrstu tíu daga ágústmánaðar, það var 1916. Þetta kemur fram í bloggfærslu Trausta Jónssonar veðurfræðings, Hungurdiskum.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 39,2 mm sem er nálægt tvöfalt meðallag en 27,2 mm á Akureyri, sem er meira en tvöfalt meðallag.

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu daga ágústmánaðar er 10,9 stig, 0,7 stigum neðan meðaltals sömu daga 1991 til 2020 og einnig neðan meðaltals síðustu tíu ára og í 18. hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Það sem af er öldinni voru dagarnir tíu kaldastir árið 2013, meðalhiti þá 10,4 stig, en hlýjastir voru þeir árið 2003, meðalhiti 13,5 stig. En ágúst hefur oftast verið hlýr á þessari öld. Á langa listanum er hitinn nú í 84. sæti (af 146), á þeim lista eru sömu dagar 2003 líka hlýjastir (ásamt 1944), en kaldastir voru þeir 1912, meðalhiti aðeins 6,4 stig, skrifar Trausti.

Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu 12,8 stig, 1,4 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en 2,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára [en hefur mjög oft verið hærri].

Hitanum hefur verið nokkuð misskipt. Á Suðurlandi er hitinn nú í 17. hlýjasta sæti aldarinnar og 16. hlýjasta við Faxaflóa. Aftur á móti eru dagarnir tíu þeir fjórðu hlýjustu á Austurlandi að Glettingi. Sé litið til einstakra stöðva er jákvæða vikið miðað við síðustu tíu ár mest á Skjaldþingsstöðum, þar er hiti 3,6 stig ofan meðallags, en neikvæða vikið er mest -1,7 stig á Garðskagavita, skrifar Trausti en bloggið má lesa í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert