Virtu ekki tveggja metra reglu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af tveimur veitingastöðum í miðborginni á tæpum hálftíma í gærkvöldi vegna brota á reglum um smithættu. 

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að tveggja metra reglan hafi ekki verið virt á stöðunum.  Starfsmenn brugðust við afskiptum lögreglu og færðu borð og stóla og báðu gesti að færa sig þannig að reglur væru virtar. 

Lögreglan hafði afskipti af manni í hverfi 109 í Breiðholti á áttunda tímanum í gærkvöldi og reyndi hann að flýja af vettvangi á hlaupum. Maðurinn er grunaður um vörslu fíkniefna og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.

Um klukkan 22 haldlagði lögreglan rúmlega 20 kannabisplöntur ásamt tilbúnum efnum og tækjum í Breiðholtinu (hverfi 111). Lögreglan handtók mann á staðnum og er hann vistaður í fangageymslum lögreglu í tengslum við rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert