Slæmar aðstæður í Básum

Krossá er í miklum vexti þessa stundina.
Krossá er í miklum vexti þessa stundina. Ljósmynd/Þóra Björg Ragnarsdóttir

Veðurstofan beinir því til ferðafólks að há vatnsstaða er í ám og lækjum vegna vætusamrar tíðar á Suður- og Vesturlandi. Mestu vatnavextirnir hafa verið á sunnanverðu hálendinu, þar sem mikið vatn er í ám og viðvaranir hafa verið gefnar út.

Spáð er úrkomu í dag og fram á annað kvöld á vestanverðu landinu, svo gera má ráð fyrir áframhaldandi hárri vatnshæð.

Auknar líkur eru á grjóthruni og skriðum í bröttum hlíðum. Ferðafólk er beðið um að sýna sérstaka aðgát við vatnsföll, vöð og undir bröttum hlíðum, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Þóra Björg Ragnarsdóttir, skálavörður í Básum á Goðalandi, segir aðstæður slæmar og að þar hafi rignt gríðarlega frá því á laugardag. „Ég myndi ekki senda neinn nema það sé vanur bílstjóri og sé á breyttum bíl.“ 

Finna þurfti nýtt vað yfir Krossá, en Brynjólfur Flosason, rekstrarstjóri Volcano Huts í Húsadal, segir að það sé kominn stöðugleiki í ána, svo ekki er alveg ófært. 

„Það er búið að finna ágætis vað fyrir þá sem eru vanir og á réttri tegund bifreiða. Þá er fært, eins og er oft í Þórsmörk,“ segir Brynjólfur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert