„Ég var búinn að sætta mig við að fara niður“

Steinþór Óskarsson var hætt kominn úti fyrir Gautaborg á seglbretti …
Steinþór Óskarsson var hætt kominn úti fyrir Gautaborg á seglbretti í síðustu viku. Hann komst þó heill í land eftir mikla þrekraun. Seglbrettaiðkunn er talsvert stunduð í Skandinavíu og víðar, auk þess sem stundum má sjá slíka garpa við Íslandsstrendur (t.v.) Samsett mynd

Mánudagurinn fyrir viku síðan var hefðbundinn sumardagur í Gautaborg í Svíþjóð, en þó var talsverður vindur. Steinþór Óskarsson, sem hefur búið þar síðasta áratuginn, ákvað að nýta veðrið til að fara ásamt félaga sínum á seglbretti, en það er iðja sem hann hefur stundað síðustu fimm árin. Hefðbundin brettaiðkun snerist hins vegar snögglega yfir í baráttu upp á líf og dauða og má í raun segja að ekki hafi miklu mátt muna að Steinþór væri ekki til frásögu um atburðina.

Þennan dag ákváðu þeir félagar að halda í flóa rétt norður af Gautaborg þar sem áin Nordre älv rennur til sjávar. Er þar talsverður straumur, auk þess sem þennan dag var nokkur alda. „Þetta voru nokkuð grófar aðstæður,“ segir Steinþór í samtali við mbl.is, en þó ekkert sem þeir voru ekki vanir, enda báðir reyndir í faginu og vanir ýmsum aðstæðum.

„Stykki sem á ekki að brotna

Seglbretti sem þessi eru nokkuð þekkt í Skandinavíu, Miðjarðarhafinu og víðar, en hafa þó ekki náð mikilli fótfestu hér á landi, þó þau sjáist við og við. Eru þetta bretti sem fljóta á vatni og í miðju þeirra er svo skrúfaður svokallaður mastfótur sem heldur uppi seglinu.

Eftir góðan tíma á siglingu á flóanum voru þeir félagar orðnir aðskildir og hélt félaginn í land. Steinþór var þá sjálfur á miðjum flóanum, eins langt frá landi og mögulegt var, eða um 1 km í báðar áttir. Á þeim tímapunkti brotnar mastfóturinn. „Þetta er stykki sem á ekki að brotna en ég er óheppinn þarna,“ segir Steinþór.

„Verulega óþægilegar hugsanir sem sóttu að mér

Lendir hann í sjónum haldandi í seglið, en brettið hins vegar fer á talsverðum hraða með strauminum lengra á haf út. Þar sem seglið eitt og sér sekkur tekur Steinþór þá ákvörðun að sleppa því og synda á eftir brettinu. „Ég syndi skriðsund á eftir brettinu, en finn svo að ég er ekki í nokkru sundformi og þreytist mjög fljótt. Kemst nær brettinu en finn að ég er aldrei að fara að ná því. Þá fæ ég pínu panik og öskra: „Er það virkilega svona sem lífið er að fara að enda hjá mér“ og ég trúði ekki að þetta væri að gerast hjá mér á svona óþarfa máta. Þetta voru alveg verulega óþægilegar hugsanir sem sóttu að mér þarna.“

Steinþór var klæddur í nokkuð þykkan blautbúning, sem hann segir að sé mjög fínn fyrir seglbretti, enda taki hann vel vatnshöggin, en að slíkur galli verði seint notaður í sundkeppnum. Eins og fyrr hefur komið fram var talsverður vindur og  alda á sjónum, en á móti kom straumur frá ánni.

Nauðsynlegt að halda ró sinni og hugsa skýrt

Hann áttaði sig fljótt á því að besta leiðin til að halda lífi í þessum aðstæðum væri að halda ró sinni og reyna að hugsa skýrt. Las hann í aðstæður að með vind og öldu að landi ætti hann að geta synt þangað sjálfur.

Seglbretti samanstanda af bretti sem flýtur og svo mastfæti sem …
Seglbretti samanstanda af bretti sem flýtur og svo mastfæti sem seglið er fest við. Hér má sjá tvo seglbrettakappa við Seltjarnarnes fyrir nokkrum árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann byrjaði því að synda bringusund, en meðal annars vegna stífleika gallans þreyttist hann mjög fljótt. Þá skipti hann yfir í baksund, en þannig er mun auðveldara að halda sér á floti og það kallar ekki á jafn mikla vinnu. Hins vegar fékk hann á þennan hátt sjávarölduna alltaf yfir andlitið á sér. „Aldan var alltaf að berja á andlitinu á mér þannig að það var mjög erfitt að anda. Ég var alltaf að stoppa til að ræskja upp vatni og það var að fara í maga og lungu. Það jók því ekki vonina,“ segir hann.

Komst ekkert áfram út af straumi frá landi

Fljótlega áttaði hann sig hins vegar á því að þar sem straumurinn frá landi var svo sterkur virtist hann lítið sem ekkert komast áfram aftur að landi. Brá hann því á það ráð að byrja að synda 90 gráður upp í strauminn. „Þá fyrst fannst mér ég fara að hreyfast eitthvað.“

Steinþór tók stefnuna á klett sem var á ströndinni og hélt baksundinu áfram. Eftir á að giska 5 mínútur áttaði hann sig hins vegar á því að hann hafði snúið 180 gráður af leið og var farinn að synda í vitlausa átt. Bæði hafi það verið vegna þess að aldan hafi alltaf verið að skella í augun á honum og þannig dregið úr skyggni auk þess sem hann sé líklega örlítið sterkari á annarri hliðinni. „Þarna var maður að verða orkulítill. Þetta var ekki til þess að auka vonina að maður myndi hafa þetta af,“ segir hann.

Strandgæslan var of langt í burtu

Félagi Steinþórs var sem fyrr segir kominn í land. Athugaði hann með stöðuna á Steinþóri úr kíki en sá aðeins til brettisins og hringdi beint á strandgæsluna. Var þyrla send á vettvang, en var að leita um 1 km frá þeim stað sem Steinþór hafði farið í sjóinn. „Ég reyni eitthvað að baða út höndunum en ég sé að það er vonlaust að öskra eitthvað. Þeir sjá mig ekkert enda svo langt í burtu.“

Svo þreyttur að honum var sama um allt

Á þessum tímapunkti segir Steinþór að hann hafi verið orðinn mjög þreyttur, en á að giska aðeins 200 metrar í land. Til að halda sér gangandi reyndi hann ýmiskonar aðferðir. „Ef ég færist einn metra í hverju sundtaki þá þarf ég bara að telja upp í 200. Það var allskonar svona sem maður reyndi að plata sig í.“ Eftir að hafa talið upp í 20 var hann hins vegar alveg búinn. „Þarna hugsaði ég, vá hvað það er sorglegt að hafa verið í sjónum í 50 mínútur og ég ætla ekki að hafa af síðasta spottann. Ég var búinn að sætta mig við að fara niður. Ég var orðinn svo þreyttur að mér var sama um allt. Þetta er mjög skrítin tilfinning.“

Steinþór Óskarsson hefur verið búsettur í Gautaborg síðustu 10 ár, …
Steinþór Óskarsson hefur verið búsettur í Gautaborg síðustu 10 ár, en þar kláraði hann meistaranám á sínum tíma og hefur síðan ílengst ytra. Ljósmynd/Aðsend

Krampar, höfuðverkur og sjóveiki, en hélt áfram

Hins vegar fór adrenalínið á fullt og lífsviljinn tók yfirhöndina að sögn Steinþórs sem hélt áfram að reyna að koma sér í land. Þarna var hann kominn með krampa í líkamann af ofreynslu og kulda, en þrátt fyrir að vera í blautbúningi er höfuðið og hendur bert. Þá segist Steinþór einnig hafa verið kominn með skrítinn höfuðverk og sjóveiki.

„Þá vissi ég að ég myndi lifa af

Allt í einu fór hann svo að finna fyrir örlítið meiri hita og þá vissi hann að það væri orðið grynnra og svo fann hann fyrir botninum. „Þá vissi ég að ég myndi lifa af, en á því augnabliki var mér alveg sama ég var svo búinn á því.“ Segist hann ekkert hafa átt eftir á þeim tímapunkti. „Ef þetta hefðu verið 100 metrar í viðbót er ég ekki viss um að ég væri að tala við þig í dag,“ segir hann við blaðamann.

Þegar hann var kominn í land komu sjúkraflutningsmenn á staðinn og spurðu hvort hann vildi fara upp á sjúkrahús. Steinþór sagðist í því ástandi ekki geta tekið þá ákvörðun og var honum því skutlað upp á sjúkrahús þar sem tekið var blóðsýni sem og röntgenmynd af lungunum. Voru læknar áhyggjufullir að vatn hefði safnast þar, en Steinþór hóstaði enn mikið. Slíkt voru þó óþarfa áhyggjur. Hins vegar sýndi niðurstaða blóðprufunnar að gildi mjólkursýru í blóðinu var í algjöru hámarki og sagði læknirinn Steinþóri að hann hefði ekki áður séð slíkar tölur.

Er ekki hættur á seglbretti, en mun bæta öryggið

Afleiðingarnar voru enda þær að Steinþór var með harðsperrur í öllum líkamanum í fjóra daga eftir á. „Ég æfði íþróttir lengi en man ekki eftir öðrum eins átökum.Kroppurinn er að sprauta adrenalíni út og maður er að fá orku lánaða úr vöðvunum,“ segir Steinþór.

Samtals synti Steinþór um 1 km í land, en þá er ekki tekið með sú vegalengd sem hann villtist af leið. Þá var hann rúmlega klukkustund í sjónum.

Spurður hvort atvik sem þetta muni hafa áhrif á seglbrettaiðkun hans segir Steinþór að hann hafi svo sannarlega lært ýmislegt. Hins vegar ætli hann sér að halda áfram á brettinu. Nefnir hann fyrst að héðan í frá muni hann aldrei fara á seglbretti án björgunarvestis. Hingað til hafi hann horft til þess að brettið gæti alltaf haldið honum uppi, en atvikið hafi sýnt fram á að allt gæti gerst. „Með björgunarvesti skapast aldrei svona hætta,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert