„Vaknaði oft á næturnar“

Henrik með málverk sitt af Álftavatni. Við hlið hans situr …
Henrik með málverk sitt af Álftavatni. Við hlið hans situr hundurinn Hrói og virðir fyrir sér útsýnið. Myndir af verkum Henriks má sjá á Instagram undir notandanafninu henrik.studio. mbl.is/Árni Sæberg

Eftir að hafa unnið sem leiðsögumaður meira og minna síðasta áratuginn og menntað sig í greininni á meðan ákvað Henrik C. Hlynsson að venda kvæði sínu í kross árið 2019. „Ég ákvað að fara aftur í háskólanám,“ segir Henrik sem hætti þá í fullu starfi sem leiðsögumaður.

Henrik vann uppsagnarfrest sinn og ferðaðist um í sumarleyfinu sem hann átti inni. Þegar ferðalögunum var lokið var nokkuð í að námið ætti að hefjast og vantaði Henrik eitthvað til að hafa fyrir stafni. „Mér hefur alltaf fundist gaman að skapa eitthvað. Alltaf að hugsa út í og pæla í alls konar hlutum. Svo mundi ég að stóra systir mín átti fullt af málningardóti sem var í geymslu hjá foreldrum okkar,“ segir hann. Hann ákvað að spyrja um leyfi hjá henni til að prófa sig áfram með málningarpensilinn.

Hann stofnaði nýja Instagram-síðu, henrik.studio, og setti mynd af hverju verka sinna þar inn. Þar er hægt að sjá hvernig Henrik prófar sig áfram með ýmis viðfangsefni þar til hann virðist finna stíl sinn í einhvers konar abstrakt landslagsmálverkum. Hann hefur strax vakið áhuga bæði kunningja og annarra.

Hræðist bráðnunina

Þar til kórónuveirufaraldurinn setti allt úr skorðum í ferðamennsku hér á landi vann Henrik í hlutastarfi sem leiðsögumaður, tók eina og eina ferð, meðfram námi sínu við Háskólann á Bifröst. „Mér finnst rosalega gaman að fara með fólk um landið. Kynna fólk fyrir menningunni, náttúrunni og allt þess háttar. Ég þrífst á því að vita mikið um náttúruna og söguna og það er mikilvægt í þessum bransa,“ segir hann.

„Mér finnst íslensk náttúra mjög dýrmæt. Þegar maður er búinn að vera að vinna með fólki sem er að sjá náttúruna hérna í fyrsta skipti minnir það mann á hversu mögnuð hún er.“ 

Henrik hefur farið með hópa yfir bæði fjöll og jökla sem leiðsögumaður. „Það er ótrúlega dýrmætt. Maður hafði keyrt ótalmörgum sinnum fram hjá þessum jöklum án þess að stíga fæti á þá. Þegar maður gerði það loks þá opnaðist einhver nýr heimur. Það er magnað að fara á þessa jökla sem eru núna að hopa svo hratt að það hræðir mann. Það er ótrúlegt hve mikið hefur breyst síðan ég byrjaði að ganga á jökla 2014,“ segir Henrik.

„Að sjá þá breytast í návígi. Það er magnað að upplifa jöklana þannig.“

Smáatriðin heilla

Þessi reynsla litar að stóru leyti málverk Henriks. „Ég hef alltaf haft gaman af málverkum og ég man eftir því þegar ég var að horfa á málverk af fjöllum eftir að hafa verið leiðsögumaður í mörg ár. Þá fannst mér alltaf vanta þessi smáatriði. Að ég gæti séð að ég gæti farið hingað og þangað og að ég gæti klifrað upp þessa kletta og svo framvegis. Það var það sem kallaði á mig þegar ég byrjaði að fikta í þessu. Ég þekki smáatriðin svo vel, til dæmis hvoru megin við fjallið regnið fellur og veðrar það. Ég fór að læra inn á hvernig fjöllin eru í þessum smáatriðum. Mér finnst mjög gaman að taka lítinn pensil og fikta í þeim,“ segir hann. „Ég get ekki sleppt smáatriðum,“ bætir hann kíminn við.

„Þegar ég var að byrja var ég að fikra mig áfram með mismunandi stíla. Ég prófaði að mála portrettmyndir af vinum. Þær heppnuðust svona allt í lagi,“ segir Henrik og hlær. „Ég var svo smámunasamur að mér fannst þau ekki alveg vera nógu góð.“

Henrik málaði svo mynd af félögum sínum og útsýninu er þeir gengu Laugaveginn. „Þá næ ég að mála þetta fjall og það kallaði svo mikið á mig. Mér fannst svo ótrúlega gaman að mála það. Ég einhvern veginn festi mig í því og hugsaði að það væri gaman að gera nokkrar þannig myndir. Svo ef ég verð þreyttur á því er ég með nokkrar aðrar hugmyndir.“

Nýjasta málverk Henriks er af Svínafellsjökli og Hrútfjallstindum.
Nýjasta málverk Henriks er af Svínafellsjökli og Hrútfjallstindum. mbl.is/Árni Sæberg

Engin slökun að mála

Ég spyr Henrik út í þennan abstrakt stíl, hvernig hann hafi þróast. „Það var eitt kvöld þar sem ég var kominn inn í YouTube-frumskóginn og var eitthvað að vafra um þar,“ segir Henrik og hlær. „Það endaði á því að ég fann Bob Ross, þann mikla málningarmeistara.“ Fyrir þá sem þekkja ekki Bob Ross þá kennir hann fólki að mála í myndböndum sínum og hefur orðið frægur meðal netverja fyrir setninguna: „Við gerum ekki mistök. Við lendum bara í gleðilegum slysum.“

Henrik hugsaði þá að það væri allt í lagi að gera mistök og kannski væri það bara góð áskorun að vinna sig úr þeim. „Mér fannst það reyna á mig og reyna á pælinguna sem ég er með fyrir málverkið,“ segir Henrik. „Þetta var áskorun sem heppnaðist vel sem kom skemmtilega á óvart,“ segir hann.

Henrik segir náttúruna sjálfa vera mjög abstrakt fyrir sér. „Mér finnst mjög gaman að horfa á fjöllin hér í kring og ímynda mér hvernig ég myndi mála þau inn í málverk og hvernig abstraktið myndi rísa út úr því,“ bætir hann við.

„Ég teikna oft eitthvað abstrakt til að byrja með og sé svo eitthvað út úr því. Þá fer ég að finna fjall sem ég kannast við og þegar ég sé það þá get ég byrjað að tengja við gamlar myndir frá því ég var að labba á þessum svæðum.“

Hvað gefur það þér að mála?

„Ég var einmitt að tala um þetta við pabba um daginn. Hann sagði „Er þetta ekki alveg frábært til að geta slappað af og svona?“ Ég slappa sko ekkert af þegar ég er að mála. Ég svitna stundum við að reyna að ná öllum þessu litlu smáatriðum. En eftir á er þetta eins og að vera nýkominn úr klakabaði, ræktinni eða eitthvað slíkt. Ég finn slökunina þá, það er gífurleg losun.“

Henrik nefnir tvö málverk; af Álftavatni annars vegar og af Hrútfjallstindum og Svínafellsjökli hins vegar. „Þetta brann svo í hausnum á mér að ég vaknaði oft á næturnar með þessar myndir í hausnum. Af því það er abstrakt í myndinni þá veit maður ekki nákvæmlega hvernig útkoman verður. Það sem er svo skemmtilegt er að takast á við þennan vanda sem kemur upp. Reyna að púsla þessu saman og láta þetta líta vel út,“ segir Henrik.

Nánar er rætt við Henrik í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert