Allir Íslendingar fari í tvær sýnatökur

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að vinnulagið við skimun verði að …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að vinnulagið við skimun verði að vera með þeim hætti að hægt verði að koma í veg fyrir að smit greinist hjá þeim sem hefur áður fengið neikvætt próf. Ljósmynd/Lögreglan

Allir Íslendingar sem koma til landsins munu þurfa að fara í seinni skimun 4-5 dögum frá komu til landsins, verði tillaga sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra samþykkt. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Af þeim sex sem greinst hafa með virkt smit frá því að skimum hófst við landamærin 15. júní hafa tveir fengið neikvætt próf við komuna til landsins en greinst nokkrum dögum síðar. Þrír greindust með smit við landamærin í gær og eru tveir þeirra með gömul smit en beðið er eftir niðurstöðu frá þeim þriðja og mun hún liggja fyrir síðar í dag. 

Þórólfur segir að vinnulagið við skimun verði að vera með þeim hætti að hægt verði að koma í veg fyrir að smit greinist hjá þeim sem hefur áður fengið neikvætt próf. Hann er því að undirbúa tillögu þess efnis til heilbrigðisráðherra að allir sem eru búsettir hér á landi fari í tvær sýnatöku, þá seinni um 4-5 dögum eftir komuna til landsins. Þurfa viðkomandi að vera í sóttkví þar til niðurstaða liggur fyrir úr seinni sýnatökunni. 

Farþegar munu ekki þurfa að greiða fyrir próf sem tekið er innan við 30 dögum frá því að fyrra sýni var tekið. 

Óvíst hversu lengi þetta fyrirkomulag mun gilda, verði það á annað borð samþykkt af ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert