Spá 3% hækkun íbúðaverðs

Greiningardeild Íslandsbanka spáir um 3% árlegri hækkun íbúðaverðs til 2021 og að raunverð svo gott sem standi í stað á sama tímabili. Þetta kemur meðal annars fram í nýrri skýrslu bankans um íbúðamarkaðinn.

Íbúðaverð hækkaði um 5,2% að raunvirði árið 2018 frá árinu á undan. „Við gerum ráð fyrir því að raunverð íbúða standi í stað á árinu og hækki svo einungis um 0,2% umfram almennt verðlag á næsta ári og 0,5% árið 2021.

Nýjasta verðbólguspá Greiningar hljóðar upp á 3,1% meðalverðbólgu í ár, 2,6% árið 2020 og 2,8% verðbólgu árið 2021. Við spáum því um 3% árlegri hækkun húsnæðisverðs að nafnvirði á umræddu tímabili. Hægari kaupmáttaraukning, aukið atvinnuleysi, minni fólksfjölgun og áframhaldandi aukning á framboði nýrra íbúða eru meðal helstu skýringa á hægari hækkun íbúðaverðs. Má segja að þróunin muni endurspegla betra jafnvægi og meiri ró á íbúðamarkaði en hefur verið á síðustu árum,“ segir í skýrslunni.

Langtímameðaltal fjölda íbúða í byggingu er 2.300 íbúðir. Talning Samtaka Iðnaðarins (SI) gerir ráð fyrir um 5.000 íbúðum í byggingu.

Fullbyggðar íbúðir sem hafa komið inn á markaðinn að meðaltali á ári hverju í núverandi uppsveiflu nema einungis um 950, eða um 21% undir langtímameðaltali og 38% undir meðaltali í síðustu uppsveiflu.

Dýrustu íbúðir landsins eru sem fyrr staðsettar í miðbæ Reykjavíkur en þar er meðalfermetraverð um 564 þús. kr. um þessar mundir.

„Meðalfermetraverð á höfuðborgarsvæðinu er rúmlega 460 þús. kr. og hefur aldrei verið hærra að raunvirði. Verðið er til dæmis 9% hærra en þegar það náði hæstu hæðum í síðustu uppsveiflu árið 2007. Meðalfermetraverð á landsbyggðinni er 277 þús. kr. og 13% hærra en það var árið 2007 og hefur því heldur aldrei verið hærra að raunvirði. Engu að síður er verð á landsbyggðinni hátt í helmingi lægra en á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um þessar mundir (-40%).

Meðalfermetraverð á landsbyggðinni var mest 48% lægra en á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2016 en dregið hefur úr verðmun eftir nokkuð hraða hækkun húsnæðis á landsbyggðinni á undanförnum árum. Hafa verður í huga að samsetning íbúða í hverjum landshluta skiptir máli í þessu samhengi þar sem að fermetraverð smærri íbúða er hærra alla jafna. Á síðastliðnum tveimur áratugum hefur til að mynda hlutfall kaupsamninga um íbúðir sem eru 110 fermetrar eða smærri verið mun hærra á höfuðborgarsvæðinu(57%) en á landsbyggðinni(42%).“

Litlar íbúðir hafa aldrei verið jafn dýrar

Í skýrslunni kemur fram að meðalfermetraverð eigna undir 70 fermetrum á höfuðborgarsvæðinu er rúmlega 572 þús. kr. og hefur aldrei verið hærra að raunvirði. Verðið er til dæmis 20% hærra en þegar það náði hæstu hæðum í síðustu uppsveiflu.

„Meðalfermetraverð sambærilegra eigna á landsbyggðinni er rúmlega 311 þús. kr. og 22% hærra en það var árið 2007. Það hefur því heldur aldrei verið hærra að raunvirði. Því hefur aldrei verið eins dýrt að eignast smáar eignir á Íslandi eins og nú. Í núverandi uppsveiflu hafa áðurgreindar eignir hækkað um 77% á höfuðborgarsvæðinu og 75% á landsbyggðinni, langmest allra eigna.

Sá stærðarflokkur sem hefur hækkað næstmest er næsti stærðarflokkur fyrir ofan sem nær til eigna á bilinu 70-110 fermetrar og hafa slíkar eignir hækkað meira á landsbyggðinni (67%) en á höfuðborgarsvæðinu (60%). Þess má geta að eignir stærri en 210 fermetrar tvöfölduðust að raunvirði á sjö ára tímabili (2000-2007) í síðustu uppsveiflu. Viðlíka hækkun á einstaka húsnæðisflokki á sér að öllum líkindum enga hliðstæðu hérlendis, segir í skýrslunni en hana má lesa í heild hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert