Veitur endurgreiða 50.000 viðskiptavinum

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur í Árbæ, en Veitur eru dótturfélag Orkuveitunnar.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur í Árbæ, en Veitur eru dótturfélag Orkuveitunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veitur greiða nú út um 500 milljónir króna til viðskiptavina sem fengu álagningu á reikninga sína til Veitna árið 2016. Þær álagningar voru kærðar og nú í vor úrskurðaðar of háar. Því er þetta nú leiðrétt.

Þetta kemur við um 50.000 viðskiptavini Veitna, ýmist einstaklinga eða fyrirtæki, mest einstaklinga. Að meðaltali fær hver og einn um 10.000 krónur ef vextirnir eru reiknaðir með en allur gangur er á því hver upphæðin verður: lægsta greiðslan eru 10 krónur en hæsta, sem fer til umfangsmikils atvinnurekstrar, er upp á tvær milljónir.

Flestir þeir sem fá endurgreiðslur vegna vatnsgjalda 2016 eru venjuleg …
Flestir þeir sem fá endurgreiðslur vegna vatnsgjalda 2016 eru venjuleg heimili. Einnig eru fyrirtæki á meðal 50.000 aðilanna.

Greiðslurnar eru flestar inntar af hendi með því að lækka næsta reikning þeirra sem eiga inni hjá Veitum en síðan er hópur sem er ekki lengur í viðskiptum við Veitur. Verið er að safna reikningsupplýsingum hjá þeim aðilum til að endurgreiða þeim það sem þeir eiga inni. 

Leiðréttingin nær til vatnsveitnanna í Reykjavík, á Akranesi, í Grundarfirði og Stykkishólmi. Í byrjun árs 2017, þegar áætlun til endurreisnar fjárhagnum var lokið, lækkuðu Veitur vatnsgjaldið víða um 11,2% og aftur um 10% í byrjun árs 2018. Því voru þessar ólöglegu álagningar aðeins við lýði árið 2016.

Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga skal vatnsgjald hverrar vatnsveitu miðast við að það „…standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar“. Í vor komst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að þeirri niðurstöðu að vatnsgjald á tiltekna íbúð í Reykjavík vegna ársins 2016, sem kært var til ráðuneytisins, hafi verið of hátt. Það var prófmál og út frá því skyldi endurgreitt til allra sem voru í sömu stöðu. 

Tekjur Veitna árið 2016 námu 3,7 milljörðum og leiðréttingin nú um 440 milljónum. 61 milljón í vexti bætist við þá greiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert