Jafnar stöðu á auglýsingamarkaði

Ríkisútvarpið í Efstaleiti.
Ríkisútvarpið í Efstaleiti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, telur fyrirhugað fjölmiðlafrumvarp geta leitt til verulegra breytinga á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Veik staða einkarekinna fjölmiðla sé áhyggjuefni.

Í fyrsta lagi sé ráðuneyti hennar að skoða leiðir til að jafna stöðu íslenskra og erlendra fjölmiðla á auglýsingamarkaði. Til dæmis sé virðisaukaskattur greiddur hér á landi af innlendum auglýsingum en ekki af auglýsingakaupum hjá erlendum miðlum. Með því missi innlendir fjölmiðlar tekjur og ríkið skatttekjur.

Notkunin breyst mjög ört

„Þetta er stórmál og við verðum að ná utan um þetta. Við notum enda fjölmiðla með allt öðrum hætti en fyrir aðeins tveimur árum. Við erum að vinna þetta með fjármála- og efnahagsráðuneytinu af því að þetta er skattamál. Norðurlöndin eru að skoða þessa leið sem og Evrópusambandið líka, vegna þess að við erum að verða af skatttekjum út af þessu breytta hagkerfi. Þetta var einmitt ein af niðurstöðum G20-fundarins hjá fjármálaráðherrunum. Öll þessi ríki ætla saman að beita sér fyrir því að þessi alþjóðlegu stórfyrirtæki séu skattlögð. Þetta þurfum við að gera í alþjóðasamstarfi,“ segir Lilja. Í öðru lagi sé í undirbúningi að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði en fái í staðinn styrki. Það geti eitt og sér haft mikil áhrif á starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla, enda séu auglýsingatekjur RÚV nú tæpir 2 milljarðar.

„Ég hef talað fyrir því að við horfum til Norðurlandanna. Þar eru ríkisfjölmiðlarnir ekki á auglýsingamarkaði. Ég teldi farsælast að svo væri líka á Íslandi, ásamt því að vera með styrki til fjölmiðla, eins og boðað er í fjölmiðlafrumvarpinu.

Ég sé fyrir mér að ef RÚV fer af auglýsingamarkaði verði stofnuninni bætt það upp. Ég vil að okkar RÚV sé álíka sterkt og ríkisfjölmiðlar á hinum Norðurlöndunum. Það sem er hins vegar slæmt við íslenskan fjölmiðlamarkað er að starfsskilyrði einkareknu fjölmiðlanna eru mun lakari en á hinum Norðurlöndunum og við verðum að breyta því,“ segir Lilja í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert