Eru að klára að greiða úr flækjunni

Gríðarlegt álag hefur verið á símaveri flugfélagsins um helgina og …
Gríðarlegt álag hefur verið á símaveri flugfélagsins um helgina og þar til síðdegis í dag, en þá segir Ásdís að álagið á línurnar hafi minnkað. mbl.is/Árni Sæberg

Icelandair er að leggja lokahönd á að greiða úr þeim flækjum sem urðu vegna röskunar á flugáætlun félagsins til og frá Keflavík um helgina. Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi flugfélagsins segir að starfsfólk Icelandair hafi náð vel utan um stöðuna í gær og að nú sé einungis „örlítið eftir“. Fáir erlendir ferðamenn séu enn strandaglópar á Íslandi.

„Það hefur gengið nokkuð vel núna, að klára að greiða úr þessu,“ segir Ásdís í samtali við blaðamann, en eins og fjallað hefur verið um þurfti að aflýsa flugi yfir 3.000 farþega hjá félaginu á föstudag og laugardag.

Gríðarlegt álag hefur verið á símaveri flugfélagsins um helgina og þar til síðdegis í dag, en þá segir Ásdís að álagið á línurnar hafi minnkað.

Fjórum aukaflugferðum var bætt við til Norður-Ameríku í gær til þess að flugfarþegar kæmust leiðar sinnar, en flugfélagið þurfti að útvega fjölda erlendra strandaglópa bæði gistingu og mat um helgina, auk þess að útvega þeim ferðir til og frá Keflavíkurflugvelli.

Aftur er spáð slæmu veðri á þriðjudagskvöld og gul viðvörun í gildi á suðvesturhorni landsins. Ásdís segir að það verði að koma í ljós hversu slæmt veðrið verði og hvort mögulega þurfi að grípa til þess að ráðs að fella niður flug af þeim sökum.

„Við tökum bara eitt skref í einu. Þetta er það sem við gerum alla daga, allt árið um kring og við búum á Íslandi og maður veit aldrei hvernig veðrið verður. En við erum náttúrulega alltaf viðbúin,“ segir Ásdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert