„Vorum að reyna mjúka lendingu“

Þór Bæring Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Gaman-Ferða.
Þór Bæring Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Gaman-Ferða. Ljósmynd/Þór Bæring

„Ég held að út árið séum við að tala um einhver tvö, þrjú þúsund manns sem þetta hefur áhrif á,“ segir Þór Bæring Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Gaman-Ferða sem hefur skilað inn ferðaskrifstofuleyfi sínu og hætt starfsemi. Spurður hversu margir séu erlendis á vegum skrifstofunnar í dag segir hann það einhverja tugi.

Sú ákvörðun að hætta starfsemi Gaman-Ferða kom í kjölfar falls flugfélagsins WOW air en ferðaskrifstofan var stór viðskiptavinur félagsins auk þess sem flugfélagið átti 49% hlut í henni. Strax eftir að örlög WOW air lágu fyrir rétt fyrir síðustu mánaðamót tilkynntu Gaman-Ferðir að grípa hefði þurft til uppsagna sem vonast væri til að ekki yrði af.

Fram kom í fréttatilkynningu frá Gaman-Ferðum í gær að fall WOW air hafi reynst mun þyngri baggi en gert hafi verið ráð fyrir. Þótt ferðaskrifstofan hafi staðið vel að vígi hafi verið ljóst að lausafjárstaða hennar næstu sex mánuði yrði ekki nógu sterk til þess að réttlæta áframhaldandi rekstur með hagsmuni viðskiptavina og starfsfólks í huga.

„Við erum búin að borga fyrir ansi mikla þjónustu, bæði flug og sums staðar gistingu og miða á viðburði og svo framvegis. Það er núna í höndum Ferðamálastofu að ákveða hvernig þetta verði útfært,“ segir Þór Bæring varðandi það hvernig staðið verði að endurgreiðslu til viðskiptavina og aðstoð við þá. Framhaldið sé þannig í höndum Ferðamálastofu.

„Við vorum að reyna mjúka lendingu þannig að viðskiptavinirnir okkar og starfsfólk myndi ekki bera skaða af,“ segir Þór Bæring um þá ákvörðun að hætta rekstrinum áður en sú staða kæmi upp að hugsanlega yrði ekki hægt til dæmis að greiða starfsfólki laun. Mesti söknuðurinn sé að samstarfsfólkinu sem unnið hafi fyrir ferðaskrifstofuna.

„En þetta er bara stundum svona í lífinu. Maður vonandi sér það bara aftur einhvers staðar annars staðar í öðru stríði,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert