Viðskilnaðurinn verði sem bestur

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við funduðum með þeim í morgun. Það er ákveðinn viðbúnaður sem fer í gang við svona aðstæður og við erum að vinna með forsvarsmönnum fyrirtækisins við að átta okkur á umfanginu og hvernig við tryggjum best hagsmuni neytendanna.“

Þetta segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri í samtali við mbl.is vegna rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofunnar Gaman-Ferða, en forsvarsmenn hennar tilkynntu í gær að hún hefði skilað inn ferðaskrifstofuleyfi sínu og hætt starfsemi.

Forsvarsmenn Gaman-Ferða segja ástæðuna vera gjaldþrot flugfélagsins WOW air en ferðaskrifstofan átti í miklum viðskiptum við flugfélagið auk þess sem það átti 49% í henni. Flugferðir hafi orðið miklu dýrari í kjölfar þess að WOW air féll.

Eftirsjá að Gaman-Ferðum af markaðinum

Ferðaskrifstofan var með allar lögbundnar tryggingar sem grípa inn í og endurgreiða þeim sem ekki komast í ferðir sínar. Farþegar þurfa að gera kröfu í tryggingaféð rafrænt í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu til þess að fá ferðir endurgreiddar.

Skarphéðinn segir að málið sé einfaldlega í eðlilegu ferli. Forsvarsmenn Gaman-Ferða hafi haft samband við Ferðamálastofu símleiðis í gær og gert grein fyrir stöðunni og þá hafi sú vinna hafist. Samstarfið við fyrirtækið hafi gengið vel.

„Það er gott samstarf við þá til þess að tryggja að þessi viðskilnaður verði sem bestur í ljósi aðstæðna,“ segir Skarphéðinn enn fremur. „Þetta fyrirtæki stóð sig mjög vel og það er auðvitað eftirsjá að þeim af markaðinum.“

Þó nokkuð af fólki sem á pantaðar ferðir

Skarphéðinn segir aðspurður að ekki séu margir í ferðum erlendis núna á vegum Gaman-Ferða. Verið sé að vinna í því að leysa úr málum þess fólks og engin ástæða til þess að ætla að það verði eitthvert meiri háttar vandamál að leysa úr því.

Hins vegar sé þó nokkuð af fólki sem eigi pantaðar ferðir hjá Gaman-Ferðum. Verið sé að sama skapi að vinna í því hvernig þeir sem eiga pantaðar ferðir geti haldið sinni áætlun. Gangi það ekki eigi fólk sín réttindi varðandi endurgreiðslu.

Spurður hvort fleiri ferðaskrifstofur hafi lent í alvarlegum vandræðum í kjölfar falls WOW air segir Skarphéðinn að ekkert slíkt hafi verið tilkynnt til Ferðamálastofu. Gaman-Ferðir hafi verið hvað atkvæðamest af ferðaskrifstofum í kaupum á ferðum frá WOW air.

„Það kann að gerast að fleiri ferðaskrifstofur eigi eftir að lenda í erfiðleikum en við höfum ekki upplýsingar um það núna,“ segir Skarphéðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert