Tekjuaðferðin algjörlega lögmæt

Fyrirtækið Trausttak á fasteignir í Kringlunni 8-12 og er ósátt …
Fyrirtækið Trausttak á fasteignir í Kringlunni 8-12 og er ósátt við það hversu mikið fasteignamat eignanna hefur hækkað á undanförnum árum, eftir að Þjóðskrá byrjaði að nota svokallaða tekjuaðferð við matið. Myndin sýnir jólastemningu í Kringlunni. mbl.is/​Hari

Þjóðskrá Íslands var í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag sýknuð af kröfum fyrirtækisins Trausttaks ehf., í máli sem snerist um útreikninga Þjóðskrár á fasteignamati á atvinnuhúsnæði. Trausttak krafðist þess að ákvarðanir um endurmat á fasteignamati fasteignar fyrirtækisins í Kringlunni 8-12 yrðu ógiltar. Þeim kröfum var hafnað.

Fjallað hefur verið um málarekstur fyrirtækisins í borgarráði Reykjavíkurborgar og þá af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, en Trausttak fór upphaflega í mál við bæði borgina og Þjóðskrá vegna hækkunar fasteignamats og hækkandi fasteignaskatta í kjölfarið.

Fasteignamat eignarinnar sem um ræðir mun hafa hækkað um nær 100% frá fasteignamati ársins 2014 og vill fyrirtækið meina að „raunverulegt matsvirði hennar sé verulega lægra en fasteignamatið.“

Málinu var upphaflega vísað frá í héraðsdómi, aðallega á grund­velli þess að kröf­ur máls­ins á hend­ur Þjóðskrá og borg­inni ættu ekki sam­eig­in­leg­an upp­runa. Landsréttur komst síðan að þeirri niðurstöðu að taka ætti kröfur Trausttaks til efnislegrar meðferðar í héraðsdómi.

Tekjuaðferð notuð við matið

Það sem fyrirtækið var og er væntanlega enn ósátt með, er beiting svokallaðrar tekjuaðferðar við útreikning fasteignamats. Þessi aðferð var fyrst tekin upp af Þjóðskrá árið 2015 við endurmat fasteignamats verslunar- og skrifstofueigna og eigna fyrir léttan iðnað, samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu Þjóðskrár um fasteignamat árið 2018.

Tekjuaðferðin er sögð alþjóðlega viðurkennd matsaðferð, en með henni eru upplýsingar úr nýlegum leigusamningum, ásamt upplýsingum um eiginleika eigna notaðar til að útbúa líkön sem lýsa fermetraverði leigu.

„Upplýsingar úr leigulíkaninu ásamt ávöxtunarkröfu, sem fundin er með kaupsamningum, eru síðan notaðar til að áætla gangverð,“ segir í skýrslu Þjóðskrár. Þannig hefur hækkandi leiguverð fasteigna sem eru í útleigu áhrif á fasteignamatið, sé tekjuaðferð beitt, en tekjuaðferðinni er beitt í þeim tilvikum þar sem erfitt er að áætla fasteignamat með því einu að styðjast við þinglýstar heimildir.

Í niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur segir að Þjóðskrá hafi skýrt við meðferð málsins á hvaða forsendum fasteignamatið var byggt og sömuleiðis að það hefði komið fram að Þjóðskrá hefði ekki haft gögn til að byggja aðra matsaðferð á.

„Vandkvæðum getur verið bundið að finna markaðsverð fasteigna í atvinnurekstri út frá þinglýstum heimildum. Skipta slíkar eignir iðulega um eigendur í viðskiptum með hlutafé félaga sem eiga eignirnar og tilviljun getur ráðið því hvernig undirliggjandi verðmæti fasteignanna í kaupverði komi fram í aðgengilegum gögnum,“ segir í niðurstöðunni og einnig það, að ákvarðanir Þjóðskrár hafi verið lögmætar.

Trausttak ehf. þarf að greiða Þjóðskrá Íslands 600.000 kr. í málskostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert