Sakfelldir en refsing felld niður í Marple-máli

Hreiðar Már í réttarsalnum ásamt verjanda sínum Herði Felix Harðarsyni.
Hreiðar Már í réttarsalnum ásamt verjanda sínum Herði Felix Harðarsyni. mbl.is/Golli

Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi stjórnendur Kaupþings banka, voru í dag sakfelldir fyrir fjárdrátt í Landsrétti í Marple-málinu svokallaða, líkt og gert hafði verið í dómi héraðsdóms. Hins vegar var refsing yfir þeim í málinu felld niður, en Magnús hafði fengið 18 mánaða dóm í héraði og Hreiðar Már 12 mánuði.

Skúli og Guðný sýknuð

Fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson var hins vegar sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en hann hafði verið dæmdur í sex mánaða fangelsi í héraðsdómi. Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var sýknuð, líkt og í héraðsdómi.

Með fyrri dómum hefur Hreiðar hlotið sex ára fangelsi fyrir fjármálabrot, en það er refsihámark slíkra brota. Til viðbótar var honum dæmdur hegningarauki í dómi héraðsdóms í Marple-málinu. Magnús hafði áður hlotið fjögurra ára og sex mánaða dóm og bættist 18 mánaða dómur héraðsdóms þar ofan á.

Fjarri því eins yfirgripsmikið og fyrri brot

Landsréttur telur í dómi sínum núna að þótt brot hans varði háa fjárhæð sé málið fjarri því eins yfirgripsmikið og þau brot sem hann hafi þegar verið fundinn sekur um og sætt refsingu fyrir. Auk þess liggi ekki fyrir að brotið hafi verið framið í þágu hans til viðbótar við mikinn drátt á málinu, en Hæstiréttur ógilti fyrri niðurstöðu héraðsdóms vegna þess að Ásgeir Brynj­ar Torfa­son, sér­fróður meðdómsmaður í héraðsdómi, var úr­sk­urðaður van­hæf­ur vegna um­mæla hans og at­hafna á sam­fé­lags­miðlum þar sem hann lýsti ein­dreg­inni af­stöðu sinni um mál­efni Kaupþings og stjórn­enda bank­ans.

Landsréttur vísar í sömu rök varðandi niðurfellingu á refsingu Magnúsar, en hann var fundinn sekur um hlutdeild í brotum Hreiðars Más.

Magnús Guðmundsson var einnig fundinn sekur í málinu en refsing …
Magnús Guðmundsson var einnig fundinn sekur í málinu en refsing sem hann hafði hlotið í héraðsdómi var felld niður. mbl.is/Árni Sæberg

Skaðabótaskylda viðurkennd

Landsréttur viðurkennir í dóminum skaðabótaskyldu bæði Magnúsar og Hreiðars Más gagnvart Kaupþingi ehf. vegna tjóns sem gat hlotist af háttsemi þeirra. Skaðabótaskyldu gegn Skúla og Guðnýju er hins vegar vísað frá dómi þar sem þau eru sýknuð.

Í ákæru sér­staks sak­sókn­ara voru Hreiðar Már og Guðný Arna sögð hafa skipu­lagt og fram­kvæmt fjár­drátt og umboðssvik með því að hafa fært um 8 millj­arða úr sjóðum Kaupþings til fé­lags­ins Marple Hold­ing S.A. SPF. Fé­lagið er skráð í Lúx­em­borg, en deilt var um hvort það væri í eigu Skúla. Tók Landsréttur ekki afstöðu til þess í dómi sínum. Var Skúli einn af stærstu viðskipta­vin­um bank­ans fyr­ir fall bank­ans og í stóra markaðsmis­notk­un­ar­mál­inu var meðal ann­ars ákært fyr­ir lán­veit­ing­ar til fé­lags í hans eigu. Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, var í mál­inu ákærður fyr­ir hlut­deild í fjár­drætti og umboðssvik­um, meðan Skúli var ákærður fyr­ir hylm­ingu. Hann var hins vegar fundinn sekur um brot á lögum um peningaþvætti með refsiverðu athafnarleysi en ekki hylmingu í dómi héraðsdóms.

Aðeins var sakfellt fyrir einn hluta ákærunnar, en hann sneri að fjárdrætti upp á 3 milljarða sem átti sér stað í desember 2007 og voru aðeins Hreiðar og Magnús ákærðir í þeim lið. Í öðrum liðum ákærunnar var sýknað.

Dómur Landsréttar í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert