Góð dvöl á framandi stað

Sigurjón hefur ásamt þremur öðrum starfsmönnum Frosts dvalið á Shikotan …
Sigurjón hefur ásamt þremur öðrum starfsmönnum Frosts dvalið á Shikotan undanfarið. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er auðvitað frábrugðið öllu því sem maður þekkir,“ segir Sigurjón Ragnarsson, staðarstjóri Kælismiðjunnar Frosts í Shikotan sem er ein Kúrileyja austast í Rússlandi. Vísar hann í máli sínu til dvalar sinnar á svæðinu en hann hefur nú dvalið þar í um þrjár vikur ásamt þremur öðrum starfsmönnum fyrirtækisins.

Miklar framkvæmdir eru að hefjast á svæðinu en ráðgert er að uppsjávarfrystihús rísi þar á næstu mánuðum. Verkefnið er samvinnuverkefni nokkurra íslenskra tæknifyrirtækja, þar á meðal Skagans 3X, Kælismiðjunnar Frosts og Rafeyrar.

„Við erum mættir hingað til að byggja stórt sjálfvirkt frystihús ásamt starfsmönnum nokkurra annarra fyrirtækja. Það eru enn sem komið er einungis starfsmenn tveggja fyrirtækja mættir á svæðið en þeim á eftir að fjölga. Við erum fjórir komnir hingað og svo er Rafeyri með sjö menn, en þess utan erum við með nokkra verktaka á staðnum á okkar snærum, bæði frá Armeníu og Rússlandi,“ segir Sigurjón.

Gríðarlega afskekkt eyja

Það eru eflaust fáir sem kannast við eyjuna, Shikotan, en eyjan er staðsett á landamærum Rússlands og Japans. Eignarréttur eyjunnar hefur verið þrætuepli milli landanna frá lokum seinni heimsstyrjaldar þegar Rússar tóku Shikotan af Japönum. Fáir búa á eyjunni en talið er að núverandi íbúar Shikotan séu um tvö þúsund talsins.

Ráðgert er að frystihúsið verði tekið í notkun um áramótin.
Ráðgert er að frystihúsið verði tekið í notkun um áramótin. Ljósmynd/Aðsend

„Þrátt fyrir að vera öðruvísi en það sem maður þekkir hér heima hefur dvölin verið virkilega góð. Það sem má þó setja út á er að sjaldgæft er að menn tali ensku auk þess sem samgöngur eru í molum,“ segir Sigurjón.

Til að komast til Shikotan þurftu starfsmenn Frosts að fara í fjögur flug auk þyrluferðar. „Við flugum til Helsinki þaðan sem við fórum beint til Moskvu. Næsta stopp var í Sakalín áður en við tókum eitt flug í viðbót til eyjar á svæðinu. Í stað þess að taka ferju þaðan ákváðum við að fara með þyrlu á milli eyjanna,“ segir Sigurjón. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 11. ágúst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert