Les íslenskar hljóðbækur um Potter

Jóhann Sigurðarson leikari.
Jóhann Sigurðarson leikari. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er risastórt verkefni og krefst mikils af manni,“ segir Jóhann Sigurðarson leikari sem les inn á sjö hljóðbækur um galdrastrákinn Harry Potter sem eru væntanlegar í fyrsta sinn á íslensku.

Fyrstu hljóðbækurnar koma út í haust á vegum Storytel en fyrirtækið vinnur náið með bresku útgáfunni Pottermore að framleiðslu hljóðbókanna.

Stefnt er að því að gefa hverja af bókunum sjö út með mánaðar millibili. Bókaflokkurinn er nú þegar í boði á Storytel á ensku í flutningi Stephen Fry.

Les um 4.200 blaðsíður

Jóhann hefur umtalsverða reynslu af lestri hljóðbóka. Á ferilsskrá hans eru bækur á borð við Hobbitann, Petsamo eftir Arnald Indriðason, Samsærið eftir Eirík Bergmann, auk bóka eftir Jón Kalmann Stefánsson. Hann var valinn úr stórum hópi íslenskra radda af Pottermore.

Alls mun Jóhann lesa um 4.200 blaðsíður og ljá um leið fjölda áhugaverðra persóna úr bókunum rödd sína. Hann viðurkennir að verkefnið sé snúið og að góður undirbúningur sé mikilvægur.

Daniel Radcliffe í hlutverki Harry Potter.
Daniel Radcliffe í hlutverki Harry Potter.

Dobbý í uppáhaldi 

Persónurnar skipta tugum sem Jóhann þarf að tala fyrir en um 20 þeirra eru þó mest áberandi.

Spurður hvaða persónur sé skemmtilegast að tala fyrir segir hann þær vera ólíkar eins og þær eru margar en allar skemmtilegar. Hann nefnir Dumbledore og Hagrid, auk Harry Potter og vina hans. „Dobbý, hann er í miklum metum hjá mér,“ bætir hann við en segir upptalninguna endalausa. „Það er virkilega gaman að gera þetta og þetta reynir mikið á mann.“

Hafði aldrei lesið Harry Potter

Sjálfur hafði hann aldrei lesið bækurnar um Harry Potter þegar hann fékk verkefnið í hendurnar. „Ég er að koma að þessu í fyrsta sinn og þetta er ákaflega skemmtilegt. Þannig að ég er að upplifa þetta mjög sterkt.“

Hann nefnir að virkilega vel sé staðið að verkefninu hjá Storytel og þar sé starfsfólkið hreint út sagt frábært.

„Jóhann Sigurðarson er fullkominn í þessu hlutverki, rödd hans er töfrum líkust og hann ljær sögunni sannkallaðan ævintýrablæ “ segir Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi, og bætir við að hlustendur eigi von á góðu.

Stefán Hjörleifsson hjá Storytel.
Stefán Hjörleifsson hjá Storytel.

Áskrifendur Storytel yfir 7.000 

Áskriftarveitan Storytel opnaði á Íslandi 20. febrúar síðastliðinn. Áskrifendur þjónustunnar eru komnir yfir 7.000 og fer ört fjölgandi. Storytel hefur framleitt og gefið út um 100 íslenskar hljóðbækur frá opnun og er fjöldi íslenskra titla kominn á fimmta hundrað en auk þeirra eru yfir 40.000 enskar hljóðbækur og rafbækur í boði.

Höfundur bókanna um Harry Potter er breski rithöfundurinn J.K. Rowling.

Bækurnar hafa verið þýddar á 80 tungumál og hafa selst í yfir 500 milljónum eintaka á heimsvísu, sem gerir þær að einhverjum vinsælustu bókum sögunnar.

Fyrsta bókin, Harry Potter og viskusteinninn, kom fyrst út í Bretlandi 1997 en bókin kom svo út á íslensku hjá Bjarti árið 1999 og hafa bækurnar notið mikilla vinsælda á Íslandi sem annars staðar.

Þýðandi er Helga Haraldsdóttir en vísur bókanna voru þýddar af Guðna Kolbeinssyni, Jóni Halli Stefánssyni og Frank Hall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert