„Glaðir með hvað þetta gekk vel“

Það að geta sett bátinn út við ferðaþjónustuhöfnina að Reykjum …
Það að geta sett bátinn út við ferðaþjónustuhöfnina að Reykjum stytti viðbragðstíma Skagfirðingasveitar mjög, að sögn Baldurs. Ljósmynd/Landsbjörg

„Þetta gefur þegar gengur svona vel, maður sofnaði glaður í gærkvöldi,“ segir Baldur Ingi Baldursson, formaður björgunarsveitarinnar Skagfirðingasveitar, sem kom í gær að vel heppnaðri björgun tveggja trillusjómanna við Reykjaströnd í Skagafirði, en bátur þeirra sökk skyndilega af ókunnum ástæðum.

Baldur segir að í heildina hafi um 30 manns verið ræstir út vegna skipsskaðans og telur þá með áhafnir þyrlu Landhelgisgæslunnar og tveggja björgunarskipa, sem lögðu af stað frá Siglufirði og Skagaströnd.

Sjómennirnir tveir héngu utan á bátnum er björgunarsveitarmenn komu aðvífandi á Zodiac-bát og tóku þá um borð. Þeir voru í björgunargöllum og því þurrir og í góðu ásigkomulagi þrátt fyrir að hafa verið nokkra stund í sjónum.

Baldur þakkar fyrir að trillan hafi ekki verið að fullu sokkin er björgunarsveitin kom á vettvang, þar sem þá hefði getað reynst erfitt að finna mennina í sjónum, en hann var nokkuð úfinn.

„Ef þeir hefðu farið frá bátnum hefði verið mjög erfitt að finna þá í ölduganginum sem var. Í svona aðstæðum eru það bara stærri skip eða þyrla sem hafa einhverja yfirsýn,“ segir Baldur.

Land­helg­is­gæsl­unni barst neyðarboð frá trillunni klukk­an 20:39 í gærkvöldi og skip­verj­un­um var svo bjargað laust fyr­ir klukk­an 21:30

„Við vorum svo glaðir með hvað þetta gekk vel. Það gekk allt snurðulaust fyrir sig,“ segir Baldur, en miklu skipti, tímalega séð, að björgunarsveitarmennirnir gátu brunað frá Sauðárkróki og að ferðaþjónustuhöfn á Reykjum, sem stytti viðbragðstímann umtalsvert.

Ekki liggur fyrir hvað olli því að trillan sökk.

Vettvangur slyssins var í vestanverðum Skagafirði, við Ingveldarstaðarhólma.
Vettvangur slyssins var í vestanverðum Skagafirði, við Ingveldarstaðarhólma. Kort/Map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert