Systir smyglara fær lægri bætur

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur

Hæstiréttur Íslands hefur lækkað miskabætur til konu sem krafðist bóta vegna hlerunar sem hafði verið framkvæmd á heimili hennar í þágu rannsóknar sakamáls.

Um var að ræða rannsókn á umfangsmiklu fíkniefnamáli árið 2012. Meðal þeirra sem lágu undir grun við rannsóknina var bróðir konunnar, Guðmundur Ingi Þóroddsson, sem talið var að búsettur væri á Spáni en virðist hafa átt skráð heimili í Danmörku. Hann hafði tvívegis hlotið dóm fyrir Hæstarétti, annars vegar í desember 2000 þegar honum var gert að sæta fangelsi í sjö ár, og hins vegar í nóvember 2002 þegar hann var dæmdur í fangelsi í fimm ár.

Guðmundur var árið 2013 dæmdur í 12 ára fangelsi í héraðsdómi í Kaupmannahöfn fyrir fíkniefnasmyglið sem lögreglan rannsakaði árið 2012. 

Guðmundur Ingi hafði fengið að gista í íbúð systur sinnar yfir tiltekið tímabil.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að þrjá daga tímabilsins hefði hann ekki dvalið á heimili systur sinnar heldur hefði hún sjálf hafst þar við ásamt fjölskyldu sinni.

Þótt lögreglan hefði staðhæft að búnaðurinn sem komið hefði verið fyrir á heimili hennar til hlustunar hefði ekki verið í notkun þá daga sem bróðir hennar hefði ekki dvalið þar, hefði búnaðurinn engu að síður verið til reiðu og gild heimild til að beita honum.

Með því að ekki lægju fyrir sannanir um að hlustunarbúnaðurinn hefði að engu leyti verið nýttur umrædda daga ætti konan rétt til miskabóta úr hendi íslenska ríkisins. Voru bæturnar því metnar 300.000 krónur en Héraðsdómur Reykjavíkur hafði dæmt ríkið til að greiða henni 950 þúsund krónur í bætur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert