Segist koma heim fljótlega

Sindri strauk frá Sogni aðfaranótt þriðjudags.
Sindri strauk frá Sogni aðfaranótt þriðjudags. Grunnkort/Map.is

Sindri Þór Stefánsson, fanginn sem strauk úr fangelsinu að Sogni og flúði land aðfaranótt þriðjudags, fullyrðir að hafa verið haldið í fangelsi án dóms og laga og segist ætla að sanna það. Sindri hefur sent Fréttablaðinu yfirlýsingu þar sem hann útskýrir sína hlið málsins og segist ætla að koma heim mjög fljótlega.

Sindri vísar til þess að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum hafi ekki verið í gildi þegar hann lagði á flótta frá Sogni. Hann var leiddur fyrir dómara síðastliðinn þriðjudag, daginn sem úrskurðurinn féll úr gildi, en dómari tók sér sólarhrings frest til að ákveða sig. Sindri segist í kjölfarið hafa verið upplýstur um að í raun væri hann frjáls ferða sinna, en að hann yrði handtekinn ef hann yfirgæfi fangelsið án skýringa, samkvæmt frétt Fréttablaðsins.

Sindri segir í yfirlýsingunni að hann hafi verið í gæsluvarðhaldi í tvo og hálfan mánuð að ósekju og án allra sönnunargagna, og ætlar að kæra málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. 

Sindri tekur fram að hann harmi það að hafa valdið ástvinum sínum hugarangri og viðurkennir að það hafi verið röng ákvörðun að flýja. Hvað sem því líður þurfi hann og muni takast á við þá stöðu sem hann sé í.

„Unnið er að því að semja við lögregluna á Íslandi um að ég fái að koma heim án þess að vera handtekinn erlendis. Einnig að þetta skjal fái að koma upp á yfirborðið sem sýnir og styður það sem ég segi um að ég hafi verið frjáls ferða minna. Ég get verið á flótta eins lengi og ég vil, ég er kominn í samband við hóp fólks sem gefur mér þak yfir höfuðið, farartæki, þess vegna fölsuð skilríki ef ég vil og peninga til að lifa. Það væri ekkert mál ef ég mundi vilja það, en ég vil heldur og ætla að takast á við þetta heima á Íslandi svo ég kem fljótlega,“ segir í yfirlýsingu Sindra sem birt er á vef Fréttablaðsins en þar er ítarlega fjallað um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert