Samningaviðræður standa ekki til

Sindri Þór Stefánsson hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna flóttans.
Sindri Þór Stefánsson hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna flóttans.

Engar samningaviðræður eru í gangi af hálfu lögreglunnar við Sindra Þór Stefánsson um að hann komi til landsins, en hann strauk úr fangelsinu á Sogni aðfararnótt þriðjudags og komst með flugi til Svíþjóðar morguninn eftir.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum sagði í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að ekki stæði til að fara í neinar samningaviðræður við Sindra. „Í þessu tilviki er það þannig að forræði málsins er á okkar höndum, ekki hans.“

Sindri sendi Fréttablaðinu yfirlýsingu þar sem hann útskýrði sína hlið málsins og sagðist ætla að koma heim fljótlega. Þá sagði hann unnið að því að semja við lögregluna á Íslandi um að hann fengi að koma heim án þess að vera handtekinn erlendis.

Í yfirlýsingunni segir Sindri að gæslu­v­arðhalds­úrsk­urður yfir hon­um hafi ekki verið í gildi þegar hann lagði á flótta frá Sogni. Hann var leidd­ur fyr­ir dóm­ara síðastliðinn þriðju­dag, dag­inn sem úr­sk­urður­inn féll úr gildi, en dóm­ari tók sér sól­ar­hrings frest til að ákveða sig. Sindri seg­ist í kjöl­farið hafa verið upp­lýst­ur um að í raun væri hann frjáls ferða sinna, en að hann yrði hand­tek­inn ef hann yf­ir­gæfi fang­elsið án skýr­inga.

Ólafur Helgi sagði þetta alrangt hjá Sindra. „Það er ávalt þannig þegar leitað er framlengingar á gæsluvarðhaldi þá heldur hinn fyrri úrskurður gildi sínu þangað til dómari hefur úrskurðað um nýja kröfu.“ Sagðist hann telja að lögin væru mjög skýr hvað þetta varðar og við það bættist að slíkt væri viðtekin venja. „Þegar dómari tekur sér frest þá er viðkomandi ekki frjáls. Hann verður að bíða úrskurðar.“

Aðspurður hvort lögregla hefði verið í einhverju sambandi við Sindra, þó ekki væru í gangi eiginlegar samningaviðræður, sagði Ólafur Helgi að honum væri ekki kunnugt um það, en hann hefði reyndar verið fjarverandi vegna starfa erlendis. „Mér er ekki kunnugt um að nokkur einasti maður hafi rætt við Sindra Þór og ég leyfi mér að fullyrða að svo sé ekki.“

Ólafur sagði yfirlýsingu Sindra engu breyta varðandi aðgerðir lögreglu í málinu. „Ef hann finnst erlendis þá liggur það ljóst fyri að það er til handtökuskipun á hann og því verður ekki breytt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert