Opinberar gjá milli íbúa og stjórnsýslu

Segja Píratar í Kópavogi framkomu bæjarstjórans og lögfræðinga hafa „opinberað …
Segja Píratar í Kópavogi framkomu bæjarstjórans og lögfræðinga hafa „opinberað djúpstæða gjá á milli íbúa Kópavogs og stjórnsýslunnar.“ mbl.is/Hjörtur

Píratar í Kópavogi harma vinnubrögð bæjarstjóra Kópavogsbæjar í samskiptum við hjónin Guðmund R. Einarsson og Lilju Katrínu Gunnarsdóttur vegna greiðslna sem skráðar voru á dánarbú föður Guðmundar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Píratar í Kópavogi sendu frá sér í dag, en þar segir að málið sé allt hið undarlegasta. Hjónin hafi verið rukkuð um milljón króna vegna greiðslu frá Kópavogsbæ á kennitölu dánarbús föðurins. Guðmundur og Lilja hafi þó aldrei fengið þá greiðslu, heldur hafi bærinn greitt féð inn á vörslureikning lögmanns fyrrverandi eiginkonu hins látna. Maðurinn hafi hins vegar verið einhleypur og skráður sem slíkur þegar hann lést.

„Einnig hefur komið fram að Kópavogsbær greiddi fé inn á reikning aðila sem ekkert tilkall átti til þess,“ segir í tilkynningunni.

Kjarnastefna Pírata sé að allt vald skuli nálgast af virðingu og af auðmýkt gagnvart öllum umbjóðendum. Slík nálgun hafi hins vegar verið víðsfjarri í þessu tiltekna máli og bæjarstjóra, Ármann Kr. Ólafsson, setji „niður með framkomu sinni í fjölmiðlum, hegðun sem engum fulltrúa sem annt er um umbjóðendur sína sýnir.“

Gagnrýna Píratar í Kópavogi að bæjarstóri hafi kallað konuna „ekkju” opinberlega í viðtali í Bítinu á Bylgjunni á dögunum, þrátt fyrir að vita betur, sem og fyrir að hafa sakað hjónin um dónaskap í sinn garð í beinni útsendingu.  

„Viljandi skrumskæling á augljósum mistökum í stjórnsýslu bæjarins opinberlega getur aldrei verið boðleg framkoma að hálfu nokkurs, hvað þá æðsta manni þess, bæjarstjórans Ármanns Kr. Ólafssonar,“ segir í tilkynningunni.

Hjónin hafi einfaldlega óskað eftir afsökunarbeiðni vegna mistaka Kópavogsbæjar varðandi greiðsluna, að tillit sé tekið til aðstæðna og og óskað eftir skilningi á persónulegum grundvelli, en þeirri beiðni hafi  verið mætt af tómlæti.

Framkoma bæjarstjórans og lögfræðinga, sem hótað hafa hjónunum dómsmáli, hafi „opinberað djúpstæða gjá á milli íbúa Kópavogs og stjórnsýslunnar að vinna með íbúum í sameiningu, með skilning og auðmýkt í samskiptum.“

Uppfært klukkan 17:25

Kópavogsbær vill koma eftirfarandi áréttingu á framfæri vegna yfirlýsingar Pírata í Kópavogi: 

„Greiðsla makalauna (lausnarlauna) er einungis greidd til eftirlifandi maka en ekki til dánarbús. Greiðslan er greidd í nafni hins látna. Makalaun er  greidd til eftirlifandi maka samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Í umræddu tilfelli féllst Kópavogsbær á að greiða makalaun að undangenginni rannsókn og á grundvelli upplýsinga sem lagðar voru fram vegna málsins og sýndu fram á réttmæti kröfu sem gerð var f.h. eftirlifandi maka. Við útgreiðslu makalaunanna stóð Kópavogsbær skil á sköttum líkt og við hefðbundna launagreiðslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert